Vísa embættismönnum úr landi

Tyrkir hafa vísað aðalræðismanni Ísraela í Istanbul tímabundið úr landi. Tyrkir hafa þegar kallað sendiherra sinn í Tel Aviv heim og óskað eftir því við sendiherra Ísraels í Ankara að yfirgefa landið. Ísraelar hafa einnig óskað eftir því við ræðismann Tyrklands í Jerúsalem að hann fari tímabundið úr landi.

Neyðarfundur var haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi en 58 biðu bana  í mótmælum við landamæri Gaza og Ísraels í fyrradag, þar á meðal átta börn. Stjórnvöld í Belgíu, Bretlandi, Sviss, Þýskalandi og fleiri ríkjum hafa hvatt til óháðrar rannsóknar á manndrápum Ísraelshers við landamærin að Gaza-svæðinu. Bandaríkjastjórn kom í veg fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um slíka rannsókn.

Fundurinn í öryggisráðinu í gærkvöldi hófst á því að forseti þess, Joanna Wronecka, fulltrúi Póllands, óskaði eftir mínútu þögn í minningu þeirra sem létust á Gaza á mánudag og í minningu þeirra sem hafa látist í átökunum sem hafi staðið allt of lengi.

Margir fulltrúar í öryggisráðinu lýstu áhyggjum sínum af ofbeldinu og einhverjir kröfðust rannsóknar á því.

Líkurnar á því að bandarísk stjórnvöld geti knúið fram varanlegan friðarsamning milli Ísraela og Palestínumanna eru nú minni en nokkru sinni fyrr vegna þeirrar ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta að flytja sendiráð landsins í Ísrael til Jerúsalem og vegna drápa Ísraelshers á tugum mótmælenda við landamærin að Gaza. Þetta er mat margra fréttaskýrenda og sumir þeirra telja jafnvel að líkurnar á friðarsamningi fyrir milligöngu bandarískra stjórnvalda séu nánast engar. Þetta er meðal þess sem kemur í fréttaskýringu Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Á meðal þeirra svartsýnustu er Martin Indyk, sem var sérlegur sendimaður Bandaríkjastjórnar í tilraunum til að koma á friði milli Ísraela og Palestínumanna í forsetatíð Baracks Obama. Hann segir að yfirlýsingar bandarískra embættismanna um að flutningurinn á sendiráðinu geti stuðlað að friðarsamningi séu „fáránlegar“.

Embættismenn í Washington hafa sagt að tengdasonur forsetans, Jared Kushner, og Jason Greenblatt, aðalsamningamaður Trumps í alþjóðamálum, séu að leggja lokahönd á nýja áætlun um friðarsamning milli Ísraela og Palestínumanna. Ákvörðun Trumps um að flytja sendiráðið frá Tel Aviv til Jerúsalem varð til þess að leiðtogar Palestínumanna sögðu að þeir myndu ekki ljá máls á viðræðum fyrir milligöngu Bandaríkjastjórnar.

Hér geta áskrifendur lesið fréttaskýringu Boga Þórs í Morgunblaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert