Ekki færri fæðingar í Bandaríkjunum í 30 ár

3,85 milljónir barna fæddust í Bandaríkjunum í fyrra og hafa …
3,85 milljónir barna fæddust í Bandaríkjunum í fyrra og hafa ekki fæðst færri börn þar í landi á einu ári frá 1987. AFP

Fæðingartíðni í Bandaríkjunum hefur ekki verið lægri í 30 ár. 3,85 milljónir barna fæddust í Bandaríkjunum í fyrra og hafa ekki fæðst færri börn þar í landi á einu ári frá 1987. BBC segir að dregið hafi úr fæðingum stúlkna á táningsaldri og kvenna á þrítugsaldri, auk þess sem sífellt fleiri konur fresti því að verða mæður.

Auk lægri fæðingatíðni þá hefur einnig dregið úr frjósemi að því er segir í fréttinni.

Fæðingatíðni hefur farið lækkandi í flestum þróuðum ríkjum og þrátt fyrir að hún hafi ekki verið lægri í Bandaríkjunum í 30 ár er hún þó hærri þar en víða annars staðar á Vesturlöndum.

Donna Strobino hjá Johns Hopkins University segir ástæðu lægri fæðingatíðni í Bandaríkjunum nú vera þá að konur kjósi nú að seinka barneignum á meðan þær sinni frama sínum. „Menntun kvenna er að aukast. Þær eru á vinnumarkaði og eru að sinna starfsframa sínum,“ sagði Strobino í samtali við AFP.

„Á meðan að engin stefna er í gangi sem hjálpar konum á vinnumarkaði að fara í fæðingaorlof þá mun þessi þróun væntanlega halda áfram.“

Bandaríkin eru eina þróaða ríkið í heiminum, að sögn BBC, þar sem foreldrar fá ekki greiðslur úr fæðingaorlofssjóði frá ríkinu.

Breyting í væntingum samfélagsins og aukin aðgangur að getnaðarvörnum, sem og takmarkanir á fæðingarorlofi eru einnig taldar geta átt þátt lægri fæðingatíðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert