Í sviðsljósinu vegna tengdapabba Harrys

Blaðamenn að störfum á því svæði í mexíkóska bænum Rosarito …
Blaðamenn að störfum á því svæði í mexíkóska bænum Rosarito þar sem Thomas Markle, faðir Meghan Markle, býr. AFP

Mexíkóski sumarleyfisbærinn Rosarito er nú kominn í sviðsljósið þökk sé pabba Meghan Markle, sem gengur á laugardag í hjónaband með Harry Bretaprins. Bandaríski eftirlaunaþeginn Thomas Markle er nú þekktasti íbúi þessa rólega bæjar, en nýfundna frægð sína á Rosarito ekki hvað síst að þakka misheppnaðri myndatöku þessa íbúa sem olli miklu fjaðrafoki í slúðurblöðunum.

Thomas Markle hefur verið mikið í fréttum undanfarið, sem og getgátur um það hvort hann muni fylgja dóttur sinni upp að altarinu. Slíkar áætlanir virðast hins vegar nú vera úr sögunni eftir að Markle undirgekkst bráðahjartaaðgerð og því talið ólíklegt að hann verði viðstaddur brúðkaupið.

Rosarito er 700.000 manna bær við strönd Kyrrahafsins í um hálftíma fjarlægð frá bandarísku landamærunum. Fallegar strendur og gott veðurfar hafa gert bæinn að vinsælum dvalarstað fyrir Bandaríkjamenn á eftirlaunaaldri og eru þeir um 15-30% íbúa.

Kjólfataleiga Martinez. Þegar kjólfataleigan reyndist lokuð fór Markle með ljósmyndara …
Kjólfataleiga Martinez. Þegar kjólfataleigan reyndist lokuð fór Markle með ljósmyndara í partíbúðina við hliðina á og lét mynda sig þar. AFP

Skyndilega hundeltur af ljósmyndurum

Þar til Meghan trúlofaðist Harry Bretaprins var hinn 73 ára gamli Markle bara enn einn aldraður útlendingur að sleikja sólina. Í kjölfar þeirra frétta var Markle allt í einu hundeltur af ljósmyndurum og flókið samband hans við fjölskyldu sína varð allt í einu að einu aðalumfjöllunarefni slúðurpressunnar. Það var í kjölfar þessa sem Markle virðist hafa ákveðið að reyna að ná stjórn á umfjöllun um sig með aðstoð ljósmyndara.

Myndir sem í fyrstu virtust vera einlægar reyndust síðar vera uppstilltar. Þær sýndu m.a. Markle hjá klæðskera í undirbúningi fyrir brúðkaupið og að lesa sér til um Bretland á einu af kaffihúsum Rosarito. Sagan af myndunum hefur líka varpað kastljósinu á Rosarito.

Yadira Martinez, eigandi Martinez-kjólfataleigunnar, rifjar upp morguninn sem myndirnar voru teknar. „Hann kom til okkar klukkan hálftíu á laugardagsmorgni og það var var lokað,“ sagði hún við AFP. Markle og ljósmyndarinn Jeff Rayner héldu því næst í verslunina við hliðina á sem selur partívarning. Þar var námsmaðurinn og hlutastarfsmaðurinn David Flores beðinn um að taka málin á Markle. Flores segist hafa sagt þeim að hann kynni ekki að taka mál. Það skipti hins vegar ekki máli og Markle var með eigið málband með sér.

„Ég mældi hann eftir bestu getu og hinn maðurinn (Rayner) tók myndir. Mér fannst eins og þeir hefðu komið þarna til að taka myndir frekar en nokkuð annað af því að þeir komu aldrei aftur,“ segir hann. „Ég hafði ekki hugmynd um hver hann var. Eftir að fréttirnar komu í blöðunum bárust þær hins vegar hratt og nú eru allir að tala um þetta á samfélagsmiðlunum sem ég nota.“

Man eftir Díönu prinsessu

Áður en hann fór á eftirlaun starfaði Markle sem ljósasérfræðingur í Hollywood og hefur Meghan Markle sagt hann hafa haft áhrif á leiklistarferil sinn. Í Rosarito hefur hann hins vegar látið lítið fyrir sér fara þar til hið konunglega kastljós beindist að honum.

Engu að síður hafa margir bæjarbúar aðeins óljósa hugmynd um hvað málið snýst um.

„Ég man eftir Díönu prinsessu, en ég veit ekkert um börnin hennar. Hvað þá um þennan sem þú ert að spyrja mig um,“ segir Carolina Solis, sem selur skrautmuni í nágrenni kaffihússins þar sem Markle var myndaður.

„Ég frétti í bandarískum fjölmiðlum að tengdafaðir sonar Díönu prinsessu byggi hér,“ sagði Andrea Jimenez, starfsmaður í móttöku á læknastofu.

„Ég held að það komi sér vel fyrir Rosarito. Það sýnir að bærinn er ekki hættulegur eins og sagt er og að frægt fólk kemur hingað til að slappa af. Það gæti leitt til fjölgunar ferðamanna.“

Meghan Markle og Harry Bretaprins. Þótt Rosarito hafi ratað í …
Meghan Markle og Harry Bretaprins. Þótt Rosarito hafi ratað í fjölmiðla, þar sem væntanlegur tengdafaðir sonar Díönu prinsessu býr í bænum, eru ekki allir bæjarbúar vissir um hver prinsinn er. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert