Draga úr öryggisgæslu Assange

Julian Assange nýtur ekki lengur aukaöryggisgæslu í sendiráði Ekvador í …
Julian Assange nýtur ekki lengur aukaöryggisgæslu í sendiráði Ekvador í London. AFP

Forseti Ekvador, Lenin Moreno, hefur gefið fyrirskipanir þess efnis að allri aukaöryggisgæslu í sendiráði landsins í London vegna viðveru Julian Assange verði aflétt án tafar. Reuters greinir frá.

Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London síðan 2012. Þangað fór hann upphaflega til þess að forðast ákærur sænskra yfirvalda í kynferðisbrotamáli gegn honum. Saksóknarar í Svíþjóð hafa fallið frá málinu en bresk yfirvöld vilja enn taka hann höndum.

Mbl.is greindi frá því í mars að lokað hefði verið á nettengingu Assange í sendiráðinu.

Héðan í frá mun sendiráð Ekvador í London njóta sambærilegrar öryggisgæslu og í sendiráðum landsins annarsstaðar.

Forseti Ekvador hefur lýst ástandi Assange sem „steini í skónum sínum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert