Harkan í ósamræmi við mótmælin

Palestínumenn sem tóku þátt í mótmælunum leita skjóls er Ísraelsher …
Palestínumenn sem tóku þátt í mótmælunum leita skjóls er Ísraelsher hóf að beita táragasi á mannfjöldann á Gaza. AFP

Það vald sem Ísraelar beittu gegn mótmælunum á Gaza var í engu samræmi við mótmælin sem kostuðu rúmlega hundrað manns lífið. Þetta sagði mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Zeid Raad Al Hussein, á fundi Sameinuðu þjóðanna sem skoða nú hvort hefja eigi óháða rannsókn á málinu.

Sagði Zeid Gazabúa í raun vera „lokaða inni í eitruðu fátækrahverfi“ og að binda verði enda á hertöku Ísraelsmanna á Gaza.

Sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu sagði herskáa íslamista á Gaza hins vegar viljandi hafa komið almenningi í hættulegar aðstæður.

Um 60 Palestínumenn voru drepnir af hersveitum Ísraela á mánudag og hafa ekki jafn marg­ir lát­ist í átök­um Ísra­ela og Palestínu­manna á ein­um degi frá ár­inu 2014. Yfir 2.400 eru særðir. Meðal þeirra látnu eru átta börn yngri en 16 ára. 

Mót­mælt hef­ur verið í fleiri vik­ur, en skipu­lögð mót­mæli hafa verið hald­in á hverj­um föstu­degi í þrjár vik­ur á fleiri stöðum við landa­mærag­irðingu milli Ísra­els og Gaza.

Reyna ekki að draga úr mannfalli

Zeid sagði þann mikla mun sem væri á fjölda særðra og fallinna Ísraela og Palestínumanna sýna hversu ofsafengin viðbrögð Ísraelshers væru.

Greint hafi verið frá því að ísraelskur hermaður hafi særst lítillega við að fá í sig stein á mánudag að meðan að 43 Palestínumenn voru drepnir á mótmælastöðunum. 17 Palestínumenn til viðbótar voru drepnir á stöðum sem Zeid lýsti sem „heitum reitum“.

Litlar vísbendingar væru um að Ísraelar hefðu reynt að draga úr mannfalli og aðgerðir Ísraela gætu verið flokkaðar sem „vísvitandi dráp“ sem sé alvarlegt brot á Genfarsáttmálanum.

Kvaðst Zeid styðja það að „alþjóðleg óháð og hlutlaus“ rannsókn yrði gerð á ofbeldinu á Gaza og að „þeim sem bera ábyrgð á ofbeldinu verði gert að sæta ábyrgð.“

„Hernáminu verður að ljúka,“ sagði hann. „Þannig að íbúar Palestínu geti verið frelsaðir frá því og svo íbúar Ísraels geti verið frelsaðir frá því. Bindið enda á hernámið og ofbeldið og óöryggið mun að stærstum hlut hverfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert