Búlgari í haldi lögreglu

Franska lögreglan að störfum.
Franska lögreglan að störfum. AFP

Frönsk yfirvöld sögðu frá því í kvöld að karlmaður sem var handtekinn í Marseille með rafbúnað sem hægt er að nota til að búa til sprengjur sé 48 ára gamall Búlgari.

Maðurinn sagði við handtökuna að hann væri frá Tjétsníu og talaði rússnesku. Hann var handtekinn á aðallestarstöðinni í Marseille í gær eftir að kona tilkynnti um að því er henni fannst undarlega hegðun hans. 

Lestarstöðin var rýmd og henni lokað í fjórar klukkustundir í kjölfarið á meðan leitað var sprengjuefna. 

Saksóknarinn Xavier Tarabeux segir að maðurinn sé enn í haldi, grunaður um að undirbúa glæp. Á honum hafi fundist rafbúnaður.

„Hann var ekki með sprengiefni á sér, þetta var ekki hættulegt í sjálfu sér, en þetta var rafbúnaður, rafbúnaður sem er hægt að nota til að búa til sprengju,“ sagði Tarabeux.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert