Maduro fullur sjálfstrausts

Nicolas Maduro á framboðsfundi.
Nicolas Maduro á framboðsfundi. AFP

Fyrir ári hefðu fáir getað ímyndað sér að forseti hins efnahagslega hrjáða lands Venesúela myndi halda völdum annað kjörtímabil. Nú þykir hins vegar líklegt að Nicoals Maduro verði endurkjörinn í kosningunum sem fram fara í dag. Það mun þá gerast þrátt fyrir að efnahagur landsins sé rjúkandi rúst og þar sem matvæla- og lyfjaskortur geisar. Síðustu mánuði hafa fjöldamótmæli farið fram víða um landið og í átökum við lögreglu og hermenn hafa 125 fallið.

Maduro er 55 ára fyrrverandi rútubílstjóri og verkalýðsleiðtogi. Hann hefur aldrei efast um að ná endurkjöri en kosningadaginn hefur hann ítrekað fært til. Fyrst stóð til að kjósa í desember en kosningarnar fara hins vegar ekki fram fyrr en í dag, um fimm mánuðum síðar. 

Maduro þurfti að berjast fyrir því að vera álitinn verðugur arftaki forsetans fyrrverandi Hugo Chavez. Chavez sat á forsetastóli í Venesúela frá árinu 1999 til dauðadags árið 2013. Hann hafði tilnefnt Maduro, þá utanríkisráðherra, sem sinn eftirmann og til að framfylgja sínum hugsjónum. 

Henri Falcon, forsetaefni stjórnarandstöðuflokka, á fjölmennum framboðsfundi.
Henri Falcon, forsetaefni stjórnarandstöðuflokka, á fjölmennum framboðsfundi. AFP

„Hann fékk vald sitt út frá arfleifð Chavez en núna erum við með breyttan Maduro sem veit að hann er sterkur og beittari,“ segir Felix Seijas, yfirmaður Delphos sem fæst við kosningarannsóknir.

Á ýmsu hefur gengið á kjörtímabili hans: Djúp efnahagskreppa, aukin fátækt, hærri glæpatíðni, mikill fólksflótti, ofbeldisfull mótmæli og alþjóðleg viðskiptabönn.

Til að draga úr áhrifum stjórnarandstöðunnar og til að styrkja völd sín skipaði Maduro fylgismenn sína í stjórnlagaráð á síðasta ári. „Fyrir fimm árum var ég nýliði,“ sagði hann á opnum fundi nýverið. „Nú er ég öruggari með reynslu af átökum sem hefur staðið upp í elítunni og heimsvaldastefnunni. Ég er mættur, sterkari en nokkru sinni fyrr.“

Þrátt fyrir að vinsældir hans hafi dalað verulega upp á síðkastið er fátt sem bendir til annars en að hann muni fara með sigur af hólmi í forsetakosningunum yfir Henri Falcon, einu helsta forsetaefni stjórnarandstöðunnar. Falcon er fyrrverandi hershöfðingi og hefur hvatt stjórnarandstöðuna til að sniðganga kosningarnar. Stjórnarandstaðan er klofin í stuðningi sínum við Falcon. 

Biðraðir eftir almenningsvögnum í borginni Maracaibo. Íbúar Venesúela ganga til …
Biðraðir eftir almenningsvögnum í borginni Maracaibo. Íbúar Venesúela ganga til kosninga í dag, sunnudag. AFP

 Maduro hlaut nauman meirihluta atkvæða í forsetakosningunum árið 2013. Hann er af andstæðingum sínum sakaður um að eiga sök á efnahagshruninu með aðgerðum sínum og er af þeim sagður vera „einræðisherra“ sem stjórni öllu með harðri hendi, m.a. hernum.

Þingið er nánast óvirkt í landinu þar sem stjórnlagaráðið, sem Maduro setti á stofn og skipaði sjálfur í, hefur tekið við flestum verkefnum þess.

Chavez sagði Maduro vera sannan og sterkan byltingarsinna. 

Margir eru á öðru máli og segja ekki lengur hægt að líkja Maduro og Chavez saman. Meðal þeirra er Ana Elisa Osorio sem gengdi embætti ráðherra í stjórn Chavez. 

Maduro hefur brugðist við gagnrýninni með því að segjast verae „lýðræðislegur forseti“ sem eigi í „efnahagslegu stríði“ sem stjórnarandstaðan og elítan í Venesúela hái í samvinnu við bandarísk stjórnvöld. Þessum aðilum kennir hann um óðaverðbólguna og matar- og lyfjaskortinn. „Hann hefur verið vanmetinn, ekki aðeins af stjórnarandstöðunni heldur fylgismönnum Chavez,“ segir Andres Canizalez, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum. Hann segir Maduro hafa styrkt sig í sessi í kjölfar mistaka annarra, m.a. Rafaels Ramirez, sem var lengi vel orðaður við forsetaframboð. Ramirez var hins vegar rekinn úr embætti sendiherra gagnvart Sameinuðu þjóðunum í fyrra í kjölfar ásakana um spillingu.

Presturinn Javier Bertucci er forsetaefni ákveðinna stjórnarandstöðuflokka. Stjórnarandstaðan er klofin …
Presturinn Javier Bertucci er forsetaefni ákveðinna stjórnarandstöðuflokka. Stjórnarandstaðan er klofin í kosningunum. AFP

Þó að margir tengi Maduro við hinn geysivinsæla Chavez þá eru flestir sammála um að hann hafi aðeins brot af þeim persónutöfrum sem forsetinn fyrrverandi þótti hafa. Maduro hefur reynt að feta í fótspor Chavez að ýmsu leyti, m.a. með því að ávarpa þjóðina í löngu máli daglega í sjónvarpi.  Maduro lýsir sjálfum sér sem „vinnandi forseta“ og sósíalískum leiðtoga. Hann reynir að vera alþýðlegur í tali og háttum, keyrir sendibíl og gerir grín að slappri ensku sinni. Þá dansar hann salsa nýtir sér samfélagsmiðla til að koma þessari ímynd sinni á framfæri.

Forsetinn er giftur Ciliu Flores, fyrrverandi saksóknara, sem oft er við hlið hans á opinberum viðburðum. Þau eiga það til að stíga saman dans af minnsta tilefni. Sonur hans, sem er 27 ára, er meðal þeirra sem Maduro skipaði í stjórnlagaráð sitt í fyrra. 

Til að undirstrika þessa breyttu ímynd og aukið sjálfstraust er kjörorð hans í kosningunum nú: „Allir með Maduro, hollusta og framtíðin“.

Í kosningunum fyrir fimm árum var slagorðið: „Chavex að eilífu, Maduro sem forseta“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert