Rannsókn verður lokið fyrir 1. september

Rudy Giuliani er nú lögfræðilegur ráðgjafi Trumps en hann var …
Rudy Giuliani er nú lögfræðilegur ráðgjafi Trumps en hann var áður borgarstjóri New York. AFP

Rudy Giuliani, lögfræðilegur ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum vestanhafs árið 2016 og möguleg tengsl þeirra við kosningateymi Trumps, verði lokið fyrir 1. september. 

Giuliani segir í samtali við The New York Times í dag að Robert Mueller, sem fer fyrir rannsókninni, hafi greint frá þessari tímasetningu fyrir um tveimur vikum. 

Trump hefur ítrekað lýst rannsókninni sem „nornaveiðum“ og hefur lýst því yfir að hann vilji að rannsókninni ljúki sem fyrst. 

„Við viljum ekki að það sem gerðist árið 2016 endurtaki sig, þar sem þú færð andbyr í lokin og þú veist ekki hvaða áhrif það mun hafa á kosningarnar,“ sagði Giuliani við New York Times og vísaði þar til áhrifa rannsóknarinnar á næstu kosninga í Bandaríkjunum. 

James Comey, sem var yfirmaður alríkislögreglunnar, FBI, greindi frá því ellefu dögum fyrir forsetakosningarnar árið 2016 að rannsókn á meintri misnotkun Hillary Clinton á tölvupóstþjóni utanríkisráðuneytisins hefði verið opnuð að nýju. Sú tilkynning gæti hafa skaðað framboð Clinton til forseta. 

Trump rak Comey skömmu eftir að hann tók við embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert