Segja kosningarnar marklausar

Bandarísk stjórnvöld segja forsetakosningarnar sem fram fara í Venesúela í dag marklausar og hafna framboði Nicolas Maduro, núverandi forseta, sem leitast eftir endurkjöri á ólgutímum í landinu.

Kosningastaðir voru opnaðir í Venesúela í morgun en meirihluti stjórnarandstöðuflokkanna hefur hvatt til þess að fólk sniðgangi kosningarnar sem hafa verið harðlega gagnrýndar af Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og mörgum löndum í Suð- og Mið-Ameríku.

„Falsaðar kosningar breyta engu. Venesúelska þjóðin þarf að stjórna þessu landi sem hefur svo margt að bjóða heiminum,“ sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í færslu á Twitter í dag. 

Pompeo hvatti ríkisstjórn Maduros einnig til að leysa Joshua Holt, bandarískan trúboða, úr haldi. Hann hefur verið í fangelsi í Venesúela frá árinu 2016 og er sakaður um samsæri gegn ríkisstjórninni.

Ríkisstjórn Donalds Trump hefur sett þrýsting á stjórn Maduros, m.a. með viðskiptabönnum. 

Um 20 milljónir Venesúelamanna eru á kjörskrá. Maduro er talinn sigurstranglegur þrátt fyrir að um 75% þjóðarinnar sé ósátt við ríkisstjórn hans. Í landinu geisar óðaverðbólga og þar er bæði lyfja- og matvælaskortur. 

Venesúelamenn skoða kjörskrána í bænum San Cristobal í Venesúela.
Venesúelamenn skoða kjörskrána í bænum San Cristobal í Venesúela. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert