Dæmdur fyrir að myrða fjölskyldu sína

Henri van Breda í dómssalnum í dag.
Henri van Breda í dómssalnum í dag. AFP

Rúmlega tvítugur Suður-Afríkubúi var í dag dæmdur sekur um að hafa drepið foreldra sína og bróður í hrottalegri árás í janúar 2015. Systir hans særðist alvarlega í árásinni en exi var beitt við morðin.

Dómarinn sagði þegar hann kvað upp dóminn yfir Henri van Breda, 23 ára, að án nokkurs efa væri van Breda sekur um þrjú morð og morðtilraun. Henri van Breda hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Við réttarhöldin sagði hann að innbrotsþjófur hafi komið inn á heimili fjölskyldunnar seint um kvöld og myrt bróður hans Rudi, 21 árs, og foreldra hans Martin, 54 ára og Teresu, 55 ára. Árásarmaðurinn hafi einnig ráðist á systur hans, Marli, og skilið hana eftir á milli heims og helju með áverka á höfði og hálsi. 

Dómarinn segir aftur á móti að ekkert bendi til þess að brotist hafi verið inn á heimili fjölskyldunnar, sem var mjög efnuð, í úthverfi Höfðaborgar. Henri sagðist sjálfur hafa verið  á klósettinu á meðan morðinginn lét til skarar skríða gegn fjölskyldu hans. Hann var sjálfur með fjölmarga áverka sem Henri sagðist hafa fengið þegar hann reyndi að verjast árásarmanninum þegar hann kom út af klósettinu. Að sögn Henri missti hann meðvitund í kjölfarið. Saksóknarar segja aftur á móti að hann hafi sjálfur veitt sér áverkana. 

Henri van Breda gaf sig fram við lögreglu átján mánuðum efir morðin en þá var uppi orðrómur um að það ætti að handtaka hann. Málið hefur vakið mikla alþjóðlega athygli og talið að ástæðan hafi verið miklar eignir fjölskyldunnar. Þær voru metnar á 16 milljónir Bandaríkjadala. Þykir vörn van Breda minna mjög á vörn Oscar Pistoius sem var dæmdur á sínum tíma fyrir að skjóta unnustu sína til bana. Hann hélt því fram að hafa talið að innbrotsþjófur væri í felum inni á salerni íbúðarinnar og þess vegna hafi hann skotið fjórum sinnum í gegnum hurðina og myrt unnustu sína.

Henri van Breda og unnusta hans, Danielle Janse van Rensburg.
Henri van Breda og unnusta hans, Danielle Janse van Rensburg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert