Vafi um geðrænt sakhæfi í vændiskonudrápi

Myndir úr eftirlitsmyndavélum sem lögreglan í Ósló lét birta í …
Myndir úr eftirlitsmyndavélum sem lögreglan í Ósló lét birta í fjölmiðlum í desember 2015 um leið og hún óskaði eftir ábendingum frá almenningi um með hverjum þessi kona hefði hugsanlega sést síðustu augnablik lífs síns. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Óslóarbúar urðu felmtri slegnir fyrir jólin 2015 þegar fjölmiðlar greindu frá því að lík búlgörsku vændiskonunnar Galinu Sandevu, 28 ára, hefði fundist í bifreið skammt frá óperuhúsi borgarinnar. Dánarorsökin var 30 stungusár víðs vegar á líkama hennar.

Klukkan 21:34 að kvöldi 16. desember 2015 barst Neyðarlínunni átta sekúndna langt símtal úr síma vændiskonunnar en hringjandinn sagði ekki orð í símann og taldi neyðarsímavörður sem svaraði símtalinu að um svokallaða „vasahringingu“ hefði verið að ræða, síminn hefði verið í vasa eigandans og þrýstingur á hnappa leitt til óafvitandi símtals.

Lögreglan stóð í fyrstu ráðþrota en um áramótin bárust böndin að 26 ára gömlum símasölumanni frá Hamar, Leif Jørgen Bekkelund, sem lokið hafði kvöldvakt hálftíma áður en símtalið til Neyðarlínunnar barst. Sá mætti í vinnuna daginn eftir eins og ekkert hefði í skorist en eftir að sannað var talið að hann hefði verið í sambandi við hina látnu rétt fyrir andlát hennar, auk þess sem nokkrar eftirlitsmyndavélar umhverfis óperuhúsið náðu manni líkum honum á mynd, lýsti hann sig sýknan af verknaðinum.

Kjersti Narud, réttargeðlæknir við Háskólasjúkrahúsið í Ósló, ræddi við og lagði mat á Bekkelund eftir að ákæra var gefin út á hendur honum. Hún gat ekki tjáð sig um þetta tiltekna mál þegar norska ríkisútvarpið NRK ræddi við hana í janúar 2016 en sagði þó að greining hennar hefði leitt í ljós einstakling sem væri lítt fær um að finna til samúðar með öðrum eða hafa skilning á tilfinningum þeirra. „Fólk sem er ekki fært um að skilja tilfinningar annarra eða átta sig á afleiðingum gjörða sinna gagnvart öðrum á auðveldara með að fremja ofbeldisbrot,“ sagði Narud.

Hlaut 18 ára dóm

Bekkelund hlaut 18 ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Óslóar í apríl í fyrra og var málinu þegar áfrýjað til lögmannsréttar. Til stóð að halda málsmeðferðinni áfram fyrir Lögmannsrétti Borgarþings í desember en þá kom upp „verulegur vafi“ um það hvort ákærði teljist sakhæfur með tilliti til andlegs ástands hans. Hefur hegðun hans í fangelsi auk annarra atriða kveikt þann vafa.

Bekkelund gaf þá skýringu á verknaði sínum að hann og fórnarlambið hefðu deilt um verð fyrir vændisþjónustuna. Hann hefði á tímabili óttast að búlgarska konan hygðist veitast að honum og því dregið upp hníf og stungið hana 30 sinnum. Síðar komst það í hámæli að ákærði hefði sagt samstarfsmanni sínum að hann gæti breyst í varúlf með því að ráða aðra manneskju af dögum en frá þessu greindi meðal annars dagblaðið Aftenposten.

Geðlæknirinn Helge Haugerud og sálfræðingurinn Bjørn Solbakken komust sameiginlega að þeirri niðurstöðu við meðferð málsins fyrir héraðsdómi að Bekkelund væri sakhæfur og hefði verið í andlegu ástandi til að skilja afleiðingar verknaðar síns á þeirri stundu sem hann var framinn. Dagblaðið VG og fleiri fjölmiðlar greindu frá þessu. Því hefur nú verið mótmælt og hafa mótmælin meðal annars náð eyrum úrskurðarnefndar í réttarmeinafræði (n. Den rettsmedisinske kommisjon) sem nú fer fram á nýtt mat á ákærða.

„Útreiknanleiki [n. tilregnelighet, hugtak norsks refsiréttar um hvort fólk sé í andlegu ástandi til að skilja afleiðingar gjörða sinna og teljist þar með sakhæft] verður þungavigtarmál við áfrýjunarmálið. Ríkissaksóknari hefur nú farið yfir málið og það er mat ákæruvaldsins eins og staðan er nú að við munum ekki hvika frá kröfu okkar um refsingu,“ segir saksóknari í málinu, Andreas Schei, í samtali við norsku fréttastofuna NTB.

Reiknað er með að málsmeðferð fyrir lögmannsréttinum hefjist á næstu vikum.

Aðrar fréttir um málið en þær sem vísað hefur verið til:

Frá Aftenposten

Frá Dagbladet (síðan leit að ódæðismanninum stóð yfir 2015)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert