Erkibiskup hylmdi yfir með barnaníðingi

AFP

Ástralskur erkibiskup hefur verið dæmdur fyrir að hafa hylmt yfir með barnaníðingi innan kaþólsku kirkjunnar á áttunda áratug síðustu aldar. Þetta er niðurstaða ástralsks undirréttar í dag og er Philip Wilson, erkibiskup í Adelaide, því sá háttsettasti innan kaþólsku kirkjunnar sem er ákærður og dæmdur. 

Hann var fundinn sekur um að hafa hylmt yfir misnotkun kaþólsk prests á altarisdrengjum í New South Wales. Við réttarhöldin neitaði Wilson því að hluti fórnarlambanna hefði greint honum frá misnotkuninni. 

Í yfirlýsingu sem kirkjan hefur sent frá sér er haft eftir Wilson að eðlilega hefði dómurinn valdið honum vonbrigðum og að hann myndi íhuga lagalegan rétt sinn.

Í síðasta mánuði sagði Wilson í héraðsdómi Newcastle að hann hefði ekki haft hugmynd um brot James Fletcher sem áttu sér stað þegar hann var aðstoðarprestur í  Maitland, 130 km norður af Sydney. 

Fletcher var síðar dæmdur fyrir barnaníð í níu ákæruliðum árið 2004 og lést í fangelsi árið  2006. Eitt fórnarlamba hans, altarisdrengurinn Peter Creigh, greindi frá því fyrir réttinum hvernig hann hafi lýst ofbeldinu í smáatriðum fyrir Wilson árið 1976, fimm árum eftir að það átti sér stað. Þetta kemur fram á vef BBC.

Héraðsdómari hafnaði fullyrðingum Wilson um að hann myndi ekki eftir þessu samtali og að hann teldi Creigh trúverðugt vitni. Presturinn vissi að það sem honum var sagt væru áreiðanlegar upplýsingar og presturinn vildi vernda kirkjuna og orðspor hennar. 

Annað fórnarlamb greindi frá því við réttarhöldin að hann hefði lýst misnotkuninni við skriftir þegar hann var 11 ára gamall. Wilson hafi sagt að hann væri að ljúga og látið hann þylja tíu bænir í refsiskyni.

Mikill fögnuður greip um sig meðal fórnarlamba barnaníðinga sem störfuðu innan kaþólsku kirkjunnar fyrir utan réttarsalinn þegar niðurstaðan var ljós. Refsingin verður lesin upp í júní en hámarksrefsing fyrir brot sem þetta er tveggja ára fangelsisdómur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert