Hafnar nýrri miðstöð Nóbelsverðlauna

Kona tekur ljósmynd af byggingu sænsku akademíunnar í Stokkhólmi þar …
Kona tekur ljósmynd af byggingu sænsku akademíunnar í Stokkhólmi þar sem tilkynnt var um Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2016. AFP

Sænskur dómstóll hefur hafnað því að byggð verði stór miðstöð Nóbelsverðlaunanna í Stokkhólmi. Karl Gústaf Svíakonungur gagnrýndi fyrirhugaða byggingu og óttaðist að hún myndi eyðileggja sögulegar minjar.

Til stóð að byggingin, sem var hönnuð af breska arkitektinum David Chipperfield, myndi rísa við hafnarbakkann í Stokkhólmi.

Margir hafa gagnrýnt stærð hennar, staðsetningu og lit.

Áfrýjunardómstóll úrskurðaði að byggingin myndi „valda umtalsverðum skaða“ á umhverfi Blasieholmen og skemma þær sögulegu minjar sem þar er að finna.

Málinu verður áfrýjað til æðri dómstóls.

Karl Gústaf Svíakonungur, sem venjulega tjáir sig lítið um málefni sem þessi opinberlega, sagði í viðtali við Dagens Nyheter í júní 2016 að byggingin yrði risastór og of áberandi.

Borgarráð samþykkti bygginguna og hönnun hennar árið 2016 en ákveðið var að lækka hana um eina hæð vegna stærðar hennar.

Áður en málið fór fyrir dómstóla höfðu forsvarsmenn Nóbelsverðlaunanna vonast til að hafist yrði handa við byggingu miðstöðvarinnar í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert