Hvatti múslima til að taka sér frí

Inger Stojberg.
Inger Stojberg. AFP

Ráðherra innflytjendamála í Danmörku hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir að leggja til að múslimar taki sér frí frá vinnu í föstumánuðinum ramadan þar sem þeir sköpuðu mögulega hættu fyrir aðra í samfélaginu.

Ráðherrann Inger Stojberg er þekkt fyrir harða innflytjendastefnu sína. Hún sagði að fasta á vinnutíma væri áskorun í nútímasamfélagi, að því er fram kemur í frétt um málið á vef BBC.

Fyrirtæki brugðust strax við þessum ummælum og sögðu að þau teldu engin vandamál stafa af föstunni.

Fyrirtækið Arriva, sem rekur hópbílafyrirtæki víðs vegar um Danmörku segir að engin vandamál hafi komið upp vegna bílstjóra sem væru að fasta. „Sum sé, engin vandamál fyrir okkur,“ sagði talsmaður fyrirtækisins, Pia Hammershoy Splittorff, í samtali við dagblaðið Berlingske Tidende.

Sömu sögu er að segja frá samtökum starfsmanna fólksflutningafyrirtækja, 3F. Leiðtogi þeirra spurði hvort ráðherrann væri að búa til vandamál sem væri ekki til staðar.

Samtök múslima í Danmörku hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau þakka ráðherra fyrir hugulsemina en bentu á að um hóp fullorðins fólks væri að ræða sem væri fullfært um að sjá um sig sjálft og huga að samfélaginu, „jafnvel þegar við erum að fasta“.

Stojberg lét ummæli sín falla í aðsendri grein í Berlingske Tidende. Í greininni sagði hún að trúfrelsi ríkti í Danmörku og að trú væri einkamál hvers og eins. Hún benti hins vegar á að múslimar í Danmörku ætu hvorki né drykkju í meira en átján tíma á sólarhring í föstumánuðinum. Sagði hún að í dönsku samfélagi væri krafa um langan vinnudag og stundum starfaði fólk við hættulegar vélar. Tók hún sem dæmi strætisvagnabílstjóra og sagði að fastan gæti haft áhrif á öryggi og framleiðni. „Ég vil hvetja múslima til að taka frí úr vinnu í ramadan til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar fyrir aðra í dönsku samfélagi,“ skrifaði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Vor í Tungunum, Eyjasól ehf.
Nú er að skella sér í sumarbústað um helgina og eða næstu... Rúm fyrir 5-6. Tak...
fágætar bækur til sölu
til sölu nokkrar fágætar bækur Sjálfstætt fólk 1-2, frumútgáfur með kápum ...
Ýmsar áhugaverðar bækur til sölu
il sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu- og byggðasög...