Trump og Moon funda um N-Kóreu

Moon Jae-in og Donald Trump ræða málefni Norður-Kóreu í Hvíta …
Moon Jae-in og Donald Trump ræða málefni Norður-Kóreu í Hvíta húsinu í dag. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, munu hittast í dag í Hvíta húsinu í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Fundurinn er talinn sérstaklega mikilvægur í ljósi ríkjandi óvissu um hvort verði af fundi Trumps og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, sem staðið hefur til að halda 12. júní. Þetta kemur fram í frétt Yonhap-fréttastofunnar.

Moon er talinn vilja miðla málum milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu eftir að samskiptin fóru nýverið að harðna. Norður-Kórea hefur meðal annars sakað Suður-Kóreu og Bandaríkin um að hafa áform um að steypa leiðtoga Norður-Kóreu af stóli, og vinda ofan af kommúnísku þjóðfélagsskipulagi í landinu.

Í síðustu viku hættu norðurkóresk yfirvöld við viðræður við Suður-Kóreu. Ástæðan var sögð sameiginleg hernaðaræfing Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Kim hefur einnig hótað því að hætta við friðarviðræður við Bandaríkin sem áætlaðar eru 12. júní í Singapúr.

Yonhap hefur eftir Nam Gwan-pyo, aðstoðarforstjóra þjóðaröryggisráðs forseta Suður-Kóreu, að hann vonast til að komandi fundur Suður-Kóreu og Bandaríkjanna muni geta brúað bilið milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Hann sagði einnig að Trump og Moon munu líklega ræða með hvaða hætti sé hægt að tryggja farsæla kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert