Unglingur greiði 36 milljónir dollara

AFP

Fimmtán ára unglingur var dæmdur á mánudaginn til þess að greiða rúmlega 36 milljónir (um 3,8 milljarða króna) dollara í skaðabætur eftir að hann viðurkenndi að hafa komið af stað skógareldi sem geisaði mánuðum saman í Oregon-ríki í Bandaríkjunum.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að dómarinn John Olson, í Hood River-sýslu, hafi sömuleiðis dæmt drenginn til þess að skrifa afsökunarbréf til 152 einstaklinga sem lentu í sjálfheldu í fjallgöngu vegna eldsins. Drengurinn var einnig dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi og til þess að sinna samfélagsvinnu í 1.920 klukkustundir.

Fram kom fyrir dómi að líklega gæti unglingurinn aldrei greitt alla upphæðina en hægt yrði að stöðva greiðslur ungra lögbrjóta eftir tíu ár hafi þeir lokið skilorði og ekki framið aðra glæpi. Lögmaður drengsins segir dóminn fáránlegan.

Skógareldarnir geisuðu í þrjá mánuði með þeim afleiðingum að nokkur heimili eyðilögðust. Drengurinn viðurkenndi í mars að hafa valdið eldunum með því að kasta flugeldi niður í Eagle Creek-gilið hvar gróðurinn var mjög þurr.

Skógareldarnir eyðilögðu gróður á 48 þúsund ekrum lands og kostnaður við slökkvistarf var 18 milljónir dollara. Unglingurinn baðst afsökunar fyrir dóminum og sagðist hafa lært af mistökum sínum. Hann myndi leggja sitt af mörkum til að byggja samfélagið upp á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert