Verkföll lama Frakkland

AFP

Verkföll munu lama athafnalíf Frakklands í dag þar sem opinberir starfsmenn munu taka þátt í sólarhrings vinnustöðvun járnbrautarstarfsmanna. Með verkfallinu vilja þeir mótmæla umbótaáætlunum forseta Frakklands, Emmanuel Macron.

Um er að ræða lið í röð mótmæla og verkfalla opinberra starfsmanna undanfarnar vikur en þeir eru ósáttir við áætlanir Macron um að draga úr opinberum útgjöldum, rifa seglin í fjölda ríkisstarfsmanna og endurskipulagningu á rekstri franska ríkisins.

AFP

Öll stéttarfélög opinberra starfsmanna styðja verkfallið í dag en slík samstaða er sjaldséð í Frakklandi. Síðast gerðist það fyrir tíu árum.

Verkföllin í dag hafa áhrif á starfsemi skóla, leikskóla, flugsamgöngur og orkufyrirtæki.

Áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að umbæturnar taki gildi á næsta ári. Stefnt er að því að fækka ríkisstarfsmönnum um 120 þúsund árið 2022 en alls eru þeir 5,6 milljónir talsins. 

Margir opinberir starfsmenn óttast að með áætlun stjórnvalda verði þeir sviptir sérstöðu á vinnumarkaði. Þeim er þar tryggð atvinna út ævina. Þegar hefur verið tilkynnt um að sú regla gildi ekki lengur hjá ríkisjárnbrautarfyrirtækinu, SNCF. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert