Byssan fundin sem Jemtland var skotin með

Janne Jemtland var skotin í höfuðið og síðan kastað í …
Janne Jemtland var skotin í höfuðið og síðan kastað í Glommu.

Norska konan Janne Jemtland var skotin í höfuðið og síðan sökkt í ána Glommu, að sögn saksóknara norsku lögreglunnar, André van der Eynden. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í morgun en VG greindi frá því um helgina að dánarorsökin hafi verið drukknun. Eynden segir að lokaútgáfa krufningarskýrslunnar liggi ekki fyrir. 

Eynden segir að unnið sé út frá þeirri kenningu að banamein hennar hafi verið skotsár á höfði. Lögreglan sakar eiginmann hennar um að hafa myrt Janne og að hafa komið sönnunargögnunum undan. 

Jemt­land, sem var 36 ára gömul, hvarf 29. des­em­ber. Eig­inmaður­inn var hand­tek­inn og ákærður fyr­ir að hafa myrt hana 12. janú­ar. Hann hef­ur viður­kennt að hafa skotið hana en seg­ir að um slysa­skot hafi verið að ræða.  

Lög­regl­an tel­ur að Jemt­land hafi verið skot­in með skamm­byssu fyr­ir utan heim­ili þeirra í Veldre í Brumund­dal. Byssan, sem lögregla telur að hafi verið notuð, fannst utandyra í Vangsåsen 8. maí, segir Trond Blikstad, yfirlögregluþjónn í lögregluumdæminu.

„Við teljum yfirgnæfandi líkur á að þetta sé rétta vopnið. Við höfum sent það til rannsóknar hjá Kripos en niðurstaða rannsóknarinnar liggur ekki enn fyrir. Við fundum skothylkið einnig á sama svæði,“ sagði Blikstad á blaðamannafundinum í morgun samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins.

Hvorki saksóknari né lögregla vilja staðfesta eða hafna frásögn VG og segja að þar sem fullnaðarkrufningarskýrsla liggi ekki fyrir sé það ekki hægt.

Frétt Aftenposten

Frétt NRK

mbl.is