Í lífstíðarfangelsi fyrir sýruárás

Berlinah Wallace.
Berlinah Wallace. Ljósmynd/Lögreglan í Avon og Somerset

Kona í Bretlandi hefur verið dæmd í lífstíðarfangelsi eftir að hún var fundin sek um sadíska sýruárás á fyrrum elskhuga sinn. Maðurinn var svo illa slasaður eftir árásina að lífi hans lauk með líknardauða.

Í frétt Guardian af málinu segir að hin 49 ára Berlinah Wallace hafi skvett brennisteinssýru á Mark van Doningen, 29 ára, í öfundsýkis- og reiðiskasti eftir að hann hóf samband við aðra konu.

Wallace þarf að sitja í fangelsi í minnst 12 ár, að frádregnum þeim tíma sem hún hefur sætt gæsluvarðhaldi, áður en hún á möguleika á reynslulausn.

Dómarinn Nicola Davies sagði árásina fyrirfram ákveðna og sadíska. Þá sagði hún Wallace stjórnsama og hættulega.

Van Dongen lá á sjúkrahúsi í Bristol í heilt ár áður en aðstandendur hans létu flytja hann með einkasjúkrabíl til Belgíu þar sem hann sótti um líknardráp. Andlit hans og líkami hlutu varanlegan skaða af árásinni, en sýran brenndi 25% af yfirborði húðar hans. Hann lamaðist frá hálsi og niður og missti mestan hluta sjónarinnar auk þess sem þurfti að aflima neðri hluta vinstri fótar hans.

Wallace mun hafa hellt yfir hann sýru þar sem hann lá hálfnakinn í rúmi sínu. Hún hló á meðan hún hellti sýrunni og sagði „Ef ég get ekki fengið þig, getur það enginn.“

Dómarinn sagði verknaðinn hreina illsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert