Kaþólska kirkjan heldur sig til hlés

Veggspjald á götuhorni í Dublin. Hart er deilt um breytingar …
Veggspjald á götuhorni í Dublin. Hart er deilt um breytingar á fóstureyðingalöggjöf landsins. AFP

Kaþólska kirkjan á Írlandi hefur ekki blandað sér að ráði í kosningabaráttu um breytingar á fóstureyðingalöggjöf landsins, að minnsta kosti opinberlega. Kosningarnar fara fram á föstudag og í þeim verður kosið um hvort afnema eigi áttundu grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um bann við fóstureyðingum. Fóstureyðingalöggjöfin á Írlandi er ein sú strangasta í heimi.

Aðeins fáir fulltrúar kaþólsku kirkjunnar hafa sést á fundum þeirra sem mótfallnir eru breytingu á löggjöfinni og hafði samband kaþólskra presta (ACP) lagst gegn því að andstæðingar fóstureyðinga fengju að stíga í predikunarstóla í kirkjum landsins í kosningabaráttunni.

Í yfirlýsingu frá sambandinu fyrr í mánuðinum sagði: „Sem stofnun sem er leidd af ókvæntum og barnlausum karlmönnum erum við ekki í bestu stöðunni á nokkurn hátt til að blanda okkur í þetta mál.“

Í yfirlýsingunni sagði að kirkjan stæði vörð um rétt til lífs en einnig kom fram að líf fólks væri flókið og hjá því kæmi oft upp staða sem væri meira „grá en svört og hvít“.

Innan sambandsins eru meira en 1.000 kaþólskir prestar á Írlandi eða um þriðjungur allra slíkra í landinu. Sambandið hefur ekki tjáð sig um kosningarnar að öðru leyti.

Veggspjald á götuhorni í Dublin. Kosningabaráttan hefur verið eldfim og …
Veggspjald á götuhorni í Dublin. Kosningabaráttan hefur verið eldfim og hörð. AFP

Linda Hogan, prófessor í trúarbrögðum við Trinity-háskóla í Dublin, segir að kaþólska kirkjan hafi með þessu tekið þá herkænskulegu ákvörðun að takmarka opinberar yfirlýsingar sínar um málefni þar sem skoðun hennar er þegar vel þekkt. Hogan segir að þetta gæti verið gert í ljósi þess að kirkjan var mjög áberandi í baráttunni gegn hjónabandi samkynhneigðra í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2015. Meirihluti þjóðarinnar var hins vegar samþykkur slíkum hjónaböndum og var það nokkuð áfall fyrir kaþólsku kirkjuna.

Um 78% Íra eru kaþólskir. Í síðustu skoðanakönnun var niðurstaðan sú að um helmingur þjóðarinnar er samþykkur því að fella bann við fóstureyðingum úr gildi sem þýðir að margir kaþólikkar eru á þeirri skoðun.

 „Sú staðreynd að því hefur verið spáð að um 53% kjósi já sýnir að það er munur á því sem kaþólska kirkjan predikar og þess sem kaþólskir trúa,“ segir Hogan. 

Samkvæmt núgildandi lögum eru fóstureyðingar aðeins heimilar á Írlandi ef lífi móður er stefnt í hættu. Það hefur haft það í för með sér að þúsundir írskra kvenna hafa farið til Englands á hverju ári til að fara í fóstureyðingar. 

Kosningarnar fara fram á föstudag.
Kosningarnar fara fram á föstudag. AFP

Kosningabaráttan hefur verið eldfim og hún er augljós á götum borga og bæja landsins. Þar má sjá veggspjöld hanga víða, aðallega til stuðnings því að aflétta ekki banni á fóstureyðingum. 

Ray Browne, biskupinn af Kerry, gaf síðustu yfirlýsinguna í málinu fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar á mánudag. Hann þakkaði stuðningsmönnum beggja fylkinga fyrir að ræða málið af virðingu og yfirvegun. 

En á sunnudag var kominn annar tónn í Browne en í skilaboðum sem lesin voru í kirkjum í biskupsdæmi hans sagði að tillaga ríkisstjórnarinnar væri „öfgakennd“ og að hann ætlaði að kjósa „nei“ og hvatti hann kirkjugesti til að gera slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert