Philip Roth látinn

Einn helsti rithöfundur Bandaríkjanna, Philip Roth, er látinn 85 ára að aldri. Roth er meðal annars handhafi Pulitzer-, National Book Award- og Man Booker-verðlaunanna á ferlinum. Skáldsögur hans báru keim af fjölskyldulífi gyðinga, kynlífi og bandarískum hugmyndaheimi.

Meðal þekktra verka eru American Pastoral, I Married a Communist og Portnoy's Complaint.

Í frétt New York Times er haft eftir nánum vini Roth að rithöfundurinn hafi látist úr hjartabilun.

Roth fæddist 19. mars 1933 í Newark (New Jersey). Árið 1959 kom út smásagnasafn hans: Goodbye, Columbus, sem hlaut þekkt bandarísk verðlaun, National Book Award, ári síðar. 

Árið 1959 gengu hann og Margaret Martinson í hjónaband en skildu fjórum árum síðar. Hann kvæntist bresku leikkonunni Claire Bloom árið 1990 en þau skildu 1995.

Árið 1969 kom út verk hans Portnoy's Complaint sem sló algjörlega í gegn. Bókin var bönnuð víða um heim, ekki síst út af frægum lýsingum á sjálfsfróun söguhetjunnar en þannig reynir hún að brjótast undan boðum og bönnum gyðingdómsins, segir um bókina í Lesbók Morgunblaðsins á sínum tíma.

Árið 1979 kom The Ghost Writer út en hún var fyrsta verkið í þríleiknum um Nathan Zuckerman, en hinar tvær nefnast Zuckerman Unbound og The Anatomy Lesson.

Árið 1998 fékk Roth Pulitzer verðlaunin fyrir American Pastoral sem kom út 1997. 

Árið 2005 varð hann einn fárra rithöfunda til þess að fá birt verk í Library of America of classic American writing, enn sprelllifandi. 

Árið 2010 kom út síðasta skáldsaga hans Nemesis sem fjallar um lömunarveiki-faraldurinn 1944.

Árið 2011 hlaut hann Man Booker International Prize fyrir ævistarfið. 

Árið 2012 tilkynnti Roth formlega um að hann væri hættur skrifum á skáldskap.

Roth hlaut aldrei bókmenntaverðlaun Nóbels þrátt fyrir að ítrekað hafi veðbankar nefnt hann sem einn þeirra sem væri líklegastur til þess að hneppa það hnoss.

Philip Roth.
Philip Roth. AFP

Árni Matthíasson ritaði eftirfarandi grein í Lesbók Morgunblaðsins fyrir sjö árum. Nánar tiltekið nákvæmlega sjö árum fyrir andlát Roth, 22. maí 2011.

Fyrirsögn greinarinnar er Philip Roth og kvenfyrirlitningin:

„Fyrir stuttu voru veitt í Bretlandi svonefnd Man Booker International-verðlaun, en þau eru veit annað hvert ár og þá þeim höfundum sem ýmist rita á ensku eða sem bækur þeirra eru alla jafna fáanlega í enskri þýðingu. Sem dæmi um höfunda sem fengið hafa verðlaunin undanfarin ár eru Alice Munro, Chinua Achebe og Ismail Kadare. Öll virtust þau almennt vel að verðlaununum komin, enda hreyfði enginn mótbárum. Það fór aftur á móti allt á annan endann þegar tilkynnt var um verðlaunahafann 2011 – bandaríska höfundinn Philip Roth.

Þegar svonefndur stuttlisti verðlaunanna var kynntur 31. mars síðastliðinn urðu nokkrar umræður um þá ósk eins þeirra sem á listanum lentu, enska rithöfundarins John le Carré, að hann yrði ekki talinn með, en aðrir á listanum voru Bretarnir James Kelman, John le Carré og Philip Pullman, bandarísku höfundarnir Marilynne Robinson, Philip Roth og Anne Tyler, Wang Anyi og Su Tong frá Kína, Spánverjinn Juan Goytisolo, Líbaninn Amin Maalouf, David Malouf frá Ástralíu, Dacia Maraini frá Ítalíu og indversk-kanadíski höfundurinn Rohinton Mistry. Flest frambærilegir höfundar og ekki man ég eftir því að nokkur hafi gert athugasemd við það að Roth væri á listanum. Þegar hann þó vann verðlaunin varð það til þess að einn dómnefndarmannanna þriggja, rithöfundurinn, útgefandinn og gagnrýnandinn Carmen Thérèse Callil, sagði sig úr nefndinni og fór heldur háðulegum orðum um Roth; sagði hann sífellt vera að skrifa um það sama, sítuðandi um sama efni í hverri bókinni af annarri – því líkast sem hann sæti á andliti manns og maður væri við það að kafna.

„Mér finnst ekkert í hann spunnið sem rithöfund,“ sagði hún í viðtali við breska blaðið The Guardian og bætti við að hún hefði ekki farið dult með þá skoðun sína innan dómnefndarinnar að Roth ætti alls ekki heima á tilnefningalistanum, hann hefði verið eini höfundurinn sem ekki átti heima þar, sagði hún og líkti verkum hans við nýju fötin keisarans: „Mun nokkur lesa bækur hans eftir tuttugu ár?“

Það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að rithöfundur haldi sig við sama meginþema í bókum sínum; minnumst þess er Halldór Laxness sagði í inngangi að annarri útgáfa á Barni náttúrunnar að þegar hann hefði lesið bókina yfir hefði hann áttað sig á að hann hefði í raun alltaf verið að skrifa sömu bókina upp aftur. Hvað Philip Roth varðar er hann og vissulega oft að skrifa um það sama, en hængurinn að hann er þá að skrifa um sjálfan sig.

Það hefur komið upp í vangaveltum um það hvort Roth muni einhvern tímann hljóta nóbelsverðlaunin í bókmenntum að sjóndeildarhringur hans sé þröngur en það sem þó hefur væntanlega helst staðið í Carmen Callil er kvenfyrirlitning sem margir telja sig hafa rekist á í bókum Roths, sérstaklega í eldri verkum hans. Ekki má gleyma því að Callil er stofnandi bókaforlagsins Virago, sem sérstaklega var stofnað til að gefa út bækur kvenna og hefur barist fyrir framgangi kvennabókmennta almennt. Fleiri hafa og tekið í sama streng, til að mynda rithöfundarnir Lionel Shriver og Fay Weldon, sem báðar hafa haft orð á því hve Roth sé illa lagið að skrifa um konur og í breska dagblaðinu Independent er vitnað til orða rithöfundarins Amanda Craig: „Ég hata það hve ég þarf að brynja mig áður en ég les bækur hans, hata kvenfyrirlitningu hans og hata það að mér líður alltaf ver eftir að hafa lesið bók eftir Roth en mér leið þegar ég byrjaði á henni. Í Roth er engin von og ég held það sé rétt mat hjá Carmen [Callil] – hann mun ekki lifa.“

Í annarri grein í Lesbók Morgunblaðsins segir Björn Þór Vilhjálmsson um Roth:

„Margir skipta verkum Philips Roths í seinni tíð í tvo flokka. Annars vegar eru það „litlu“ skáldsögurnar, The Dying Animal (2001, Hin feiga skepna í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar árið 2003), Everyman, Exit Ghost, Indignation og næsta verk Roths, The Humbling (2009), en í hinn flokkinn, flokk „stóru“ sagnanna, fer ameríski þríleikurinn sem Roth skrifaði á tíunda áratugnum, American Pastoral, I Married a Communist (1998) og The Human Stain (2000), og svo Samsærið gegn Bandaríkjunum en einnig Sabbath's Theater frá 1995. Og lesendur Roths vilja skiptast í tvennt eftir því hvorn „flokkinn“ þeir kunna betur að meta. Almennt hefur verið gerður betri rómur að þeim síðarnefnda, en hinar bækurnar álitnar léttvægar í samanburði. Þótt sjálfsagt sé að skilgreina og aðgreina áherslur í höfundarverkinu er fráleitt að sniðganga „smábókmenntir“ Roths, þessa eitruðu áfellisdóma sem hann sendir út í tómið. Líkt og Deleuze and Guattari bentu á fyrir margt löngu er það einmitt aðal „smábókmennta“ að umbylta ríkjandi kerfi, afnema og afbyggja helgidóma, og þótt það sé e.t.v. ekki sanngjarnt að kenna Roth við þessa bókmenntagrein, og mikil helgi sé farin að umleika höfund þennan í menningarumræðunni, er heillandi hversu erfiður hann er alltaf í umgengni, hann er hornóttur höfundur og með því að vera alltaf á skjön við aðra má jafnvel segja að honum hafi tekist að skekkja sjálft bókmenntakerfið bandaríska, og gera það svo miklu áhugaverðara en það væri annars.“

Rúnar Helgi Vignisson, sem hefur þýtt verk Roth á íslensku, skrifar minningargrein um Nathan Zuckerman, söguhetjuna í þríleiknum sem nefndur er hér að ofan. Zuckerman er annað sjálf Roth. 

Hér er hægt að lesa greinina

Grein í New Yorker þar sem Roth er minnst

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, heiðraði Philip Roth fyrir verk hans …
Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, heiðraði Philip Roth fyrir verk hans árið 2011. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert