N-Kórea segir orð Pence „heimskuleg“

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. Orð hans vöktu litla hrifningu hjá …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. Orð hans vöktu litla hrifningu hjá ráðamönnum í Norður-Kóreu. AFP

Hátt settur norðurkóreskur embættismaður hafnar alfarið athugasemdum Mike Pence og segir þær „heimskulegar“. Þykir þetta auka enn á óvissu um að það verði af fundi þeirra Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu að því er BBC greinir frá.

Pence varaði fyrir skemmstu við því að Norður-Kórea kunni að enda „eins og Líbýa“ og vísaði þar til þess er leiðtogi landsins Muammar Gaddafi var drepinn af uppreisnarmönnum árið 2011, átta árum eftir að gefa kjarnorkuvopn sín upp á bátinn.

Sagði Choe Son-hui, sem hefur átt aðild að diplómatískum samskiptum Norður-Kóreu og Bandaríkjanna undanfarin áratug, sagði ráðamenn í Norður-Kóreu ekki munu „sárbæna“ um samræður og varaði við „kjarnorku-lokauppgjöri“ ef diplómatískar leiðir bregðast.

Undanfarna daga hafa bæði Norður-Kórea og Bandaríkin gefið í skyn að fyrirhuguðum fundi þeirra Kim og Trump 12. júní nk. kunni að verða frestað eða jafnvel hætt alfarið við hann.

Hafa stjórnvöld í Norður-Kóreu sagt að þau muni ekki einhliða losa sig við kjarnavopn sín. Bandaríkin hafa hins vegar sagt að Norður-Kórea verði að mæta því skilyrði svo af fundinum geti orðið.

Í grein sem norðurkóreska ríkisfréttastofan KCNA birti í morgun segir Choe athugasemdir Pence hafa verið „óheftar og óskammfeilnar“.

„Sem einn þeirra sem koma að málum Bandaríkjanna get ég ekki leynt undrun minni á því að svo fávíslegar og heimskulegar athugasemdir komi frá varaforseta Bandaríkjanna,“ sagði í yfirlýsingu Choe.

„Hvort Bandaríkin muni vilja hitta okkur í fundarherbergi eða eiga í kjarnorkulokauppgjöri veltur alfarið á ákvörðunum og gjörðum Bandaríkjanna.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, vakti einnig reiði Norður-Kóreu er hann tók í sama streng og Pence í síðustu viku með því að segja að Norður-Kórea gæti fylgt eftir „Líbýu-líkaninu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert