Engin friðarverðlaun fyrir Trump

Suður-Kóreumenn voru margir æfareiðir Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að hætta …
Suður-Kóreumenn voru margir æfareiðir Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að hætta við fundinn með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. AFP

Fjölmargir íbúar Suður-Kóreu eru ævareiðir út í Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að aflýsa fyrirhuguðum fundi sínum með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Um sögulegan fund hefði verið að ræða þar sem leiðtogar ríkjanna tveggja hafa aldrei áður fundað.

Finnst mörgum Suður-Kóreumönnum að þeir hafi verið sviknir um einstakt tækifæri að friður komist á á Kóreuskaganum.

Trump tilkynnti í gær að ekkert yrði af fyrirhugðum fundi þeirra Kim í Singapore í næsta mánuði og sagði óviðeigandi að funda með Kim eins og er.

„Norður-Kórea var að gera allt sem hafðist verið krafist. Þeir voru jafnvel búnir að eyðileggja kjarnorkutilraunasvæði sitt,“ sagði suðurkóreski skrifstofustarfsmaðurinn Eugene Lim í samtali við Reuters. „Trump hefur engan áhuga á friði í okkar landi. Af hverju getur hann ekki bara leyft okkur Kóreuríkjunum tveimur að lifa í friði?“

Fjöldi fjölmiðlamanna fékk að fylgjast með er Norður-Kórea jafnaði kjarnorkutilraunsvæði …
Fjöldi fjölmiðlamanna fékk að fylgjast með er Norður-Kórea jafnaði kjarnorkutilraunsvæði við jörðu í gær. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu jöfnuðu í gær kjarnorkutilraunasvæði sitt við jörðu til að „tryggja gagnsæi varðandi það að kjarnavopna tilraunum hafi verið hætt“, sagði í yfirlýsingu Norður-Kóreu. Tugir erlendra fjölmiðla fylgdist með aðgerðunum.

Fjöldi háskólanema og kvenréttindasinna mótmæltu ákvörðun Trumps í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, í gær. Kim Dong-ho, einn mótmælendanna, sagði ekki rétt að einangra Norður-Kóreu nú þegar ráðamenn þar séu að reyna að tengjast alþjóðasamfélaginu.

„Það erum við sem búum á Kóreuskaga sem munum þjást vegna gjörða þinna, Kaninn þinn,“ sagði Kim.

„Það er eins og Trump hafi rutt burt í einum vettvangi allri vinnu Kóreuríkjanna við að koma á viðræðum milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu, sagði skrifstofustarfsmaðurinn Yun Hae-ri. „Ég held að Trump sé ekki að fara rétt að ef hann vill vinna friðarverðlaun Nóbels.“

Mótmælt var við bandaríska sendiráðið í Seoul í gær.
Mótmælt var við bandaríska sendiráðið í Seoul í gær. AFP

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, sem hafði unnið ötullega að því að koma á fundi Trumps og Kims, sagðist vera ráðvilltur vegna ákvörðunar Trumps og hvatti forsetann til að láta ekki þetta einstaka tækifæri renna sér úr greipum.

Ráðamenn í Norður-Kóreu lýstu því hins vegar yfir í gær að þau væru enn reiðubúin að ræða málin við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert