Bann við fóstureyðingum verður afnumið

Meirihluti kjósenda á Írlandi kaus með því að afnema bann við fóstureyðingum í þjóðaratkvæði sem fram fór í gær en 66,4% kusu með því en 33,6% á móti.

Eins og staðan er í dag eru fóstureyðingar ekki heimilar nema þegar líf móður er í hættu en ekki í tilfelli nauðgana, sifjaspellis eða banvæns fósturgalla.

Þetta þýðir að stjórnarskrá Írlands, þar sem líf móður og ófædds barns er lagt að jöfnu, verður breytt. Þetta tilkynntu írsk stjórnvöld upp úr klukkan fimm.

Einungis eitt kjördæmi hafði meirihluta gegn því að afnema bannið, Donegal, þar sem 51,9% kusu með þeim hætti að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þetta þýðir að írska þingið mun nú kynna til sögunnar frjálslyndari löggjöf um fóstureyðingar.

Niðurstöðunum fagnað í Dublin, höfuðborg Írlands.
Niðurstöðunum fagnað í Dublin, höfuðborg Írlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert