Bjargaði barni sem hékk fram af svölum

Ljósmynd/Wikipedia.org

Rúmlega tvítugur karlmaður frá Malí, Mamoudou Gassama, hefur verið hylltur sem hetja eftir að hann tók þátt í að bjarga fjögurra ára gömlu barni í gær sem hékk fram af svölum á fjörðu hæð fjölbýlishúss í París, höfuðborg Frakklands. 

Fram kemur í frétt AFP að Gassama hafi án þess að hugsa um eigið öryggi klifrað upp eftir svölum fjölbýlishússins og komið barninu til bjargar. Myndband var tekið af björguninni sem farið hefur eins og eldur um sinu um internetið.

Slökkviliðsmenn komu skömmu síðar á vettvang. Haft er eftir talsmanni slökkviliðsins að sem betur fer hafi einhver í góðu formi og með hugrekkið í lagi getað bjargað barninu.

Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo , hringdi sérstaklega í Gassama til að þakka honum. Er haft eftir henni að hann hafi flutt til Frakklands fyrir nokkrum árum til að hefja nýtt líf.

Gassama sagði í samtali við fjölmiðla að hann hefði brugðist við án þess að hugsa. Hann hafi fundið fyrir hræðslu en aðeins eftir að hann hafði bjargað barninu.

Lögreglan hefur hafið rannsókn á því hvers vegna barnið hafi lent í þessum aðstæðum og hefur faðir þess, sem var að gæta þess, verið yfirheyrður vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert