Ekki þrælar Þjóðverja eða Frakka

Luigi Di Maio og Matteo Salvini.
Luigi Di Maio og Matteo Salvini. AFP

Tilraunir til þess að mynda samsteypustjórn Fimm stjörnu hreyfingarinnar og Bandalagsins á Ítalíu eru komnar í ákveðið uppnám eftir að forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, neitaði að samþykkja Paolo Savona sem fjármálaráðherra.

Fram kemur á fréttavef þýska vikuritsins Spiegel að ástæða sé afstaða Savonas til evrunnar en hann er andsnúinn aðild Ítalíu að evrusvæðinu. Forsetinn hefur vísað því á bug að hann hafi komið í veg fyrir myndun ríkisstjórnarinnar. Hins vegar hafi tilnefning Savonas bent til þess hvert stjórnin vildi halda varðandi evruna.

Þakklátur fyrir að vera falið að stýra viðræðunum

Mattarella verður að samþykkja hverja tilnefningu en þar sem hann neitaði að leggja blessun sína yfir Savona ákvað forsætisráðherraefni fyrirhugaðrar stjórnar, Giuseppe Conte, að skila stjórnarmyndunarumboði sínu til forsetans.

Conte sagði við fjölmiðla, eftir að hann hafði fundað með Mattarella í dag, að hann væri afar þakklátur forsetanum og forystumönnum flokkanna fyrir að hafa verið falið það hlutverk að leiða stjórnarmyndunarviðræðurnar.

„Ég fullvissa ykkur að ég lagði mig allan fram við að sinna þessu verkefni og ég get einnig fullvissað ykkur um að ég hef gert það í fullu samráði við fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem útnefndu mig sem forsætisráðherraefni.“

„Einhver (undir þrýstingi frá hverjum?) sagði nei“

Luigi Di Maio, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar, sagði ákvörðun forsetans óásættanlega og Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, gagnrýndi hana harðlega á Twitter-síðu sinni.

„Við höfum unnið dag og nótt vikum saman til þess að mynda ríkisstjórn sem ver hagsmuni ítalskra borgara. En einhver (undir þrýstingi frá hverjum?) sagði nei.“

Salvini sagði að Ítalir ættu ekki lengur að vera „þrælar“. Ítalía væri ekki nýlenda. „Við erum ekki þrælar Þjóðverja eða Frakka.“

Sergio Mattarella, forseti Ítalíu.
Sergio Mattarella, forseti Ítalíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert