Reyna að landa friðarsamningum

Vladimír Pútín og Shinzo Abe ská í gær.
Vladimír Pútín og Shinzo Abe ská í gær. AFP

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, og forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, hétu því í gær að taka frekari skref í þá átt að landa friðarsamningum á milli landanna vegna deilna um það hver eigi að fara með stjórn Kúrileyja. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Sovétríkin tóku eyjaklasann yfir við lok síðari heimsstyjaldarinnar og deilur um hann hafa þvælst fyrir samskiptum fyrst Sovétríkjanna og Japans og síðan Rússlands og Japans í meira en sjö áratugi. Eftir viðræður um Abe sagði Pútín að ráðamenn ríkjanna teldu mikilvægt að halda áfram að reyna að finna lausn sem bæði ríkin gætu sætt sig við.

Pútín bætti við að rússnesk stjórnvöld myndu greiða götu Japana sem vildu heimsækja Kúrileyjar. „Lausn á deilum er ekki auðvelt en við viljum reyna að binda enda á deiluna innan líftíma núverandi kynslóðar,“ sagði Abe. Sagði hann japönsk stjórnvöld þakklát ráðamönnum í Rússlandi að leyfa Japönum að heimsækja grafir ættingja á eyjunum.

Fundurinn í gær var nýjasta tilraunin til þess að leysa málið en viðræður hófust upphaflega árið 1956. Japanir hafa reynt að halda samskiptum sínum við Rússa góðum vegna málsins og meðal annars forðast að gagnrýna þá vegna aðgerða þeirra í Sýrlandi. Hafa japönsk stjórnvöld verið harðlega gagnrýnd af vesturveldunum af þeim sökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert