Sól upp á hvern einasta dag

Sola-ströndin í sveitarfélaginu Sola, utan við Stavanger, hefur slegið ströndunum …
Sola-ströndin í sveitarfélaginu Sola, utan við Stavanger, hefur slegið ströndunum á Spáni við dag eftir dag allan maímánuð. Ljósmynd/Helena Rúnarsdóttir

Maímánuður sem líður senn undir lok er sá hlýjasti í austurhluta Noregs í 71 ár. Fádæma veðurblíða hefur verið á landinu, sérstaklega í suður- og vesturhluta Noregs frá því í byrjun maí. 

„Þetta er dásamlegt. Lífið breytist í eitthvað allt annað líf þegar það er svona gott veður,“ segir Helena Rúnarsdóttir, sem er búsett í Stavanger, ásamt fjölskyldu sinni.

Meðalhiti í mánuðinum er sá allra hæsti frá upphafi mælinga, samkvæmt upplýsingum frá norska ríkisútvarpinu. Meðalhitinn mældist 14,5 gráður og slær við meti frá 1947 þegar meðalhiti í Noregi mældist 14,4 gráður. Þetta kemur fram í viðtali NRK við veðurfræðinginn Bente Marie Wahl. Útlit er fyrir áframhaldandi hitabylgju að sögn Wahl og því getur metið hækkað áður en mánuðurinn er á enda.

„Maður er farinn að þrá vindinn“

„Það sem er svo sérstakt við þetta núna er hvað þetta er búið að vera langur tími. Allur maímánuður hefur verið súpergóður. Hitinn hefur ekki farið undir 20 gráður og fer allt upp í 30 gráður. Maður er farinn að þrá vindinn,“ segir Helena, ólíkt því sem við eigum að venjast í sólinni á Íslandi þegar skjólið er alltaf kærkomið.

Helena segir að spár gera ráð fyrir að sólin sé ekki á förum og samkvæmt langtímaspánni er spáð áframhaldandi hitabylgju til 5. júní, að minnsta kosti. „Við fáum oft daga hérna í maí yfir tuttugu gráðum en að þetta sé svona samfellt er það sem er svo sérstakt,“ segir Helena, sem man ekki hvenær hún fór síðast í yfirhöfn.

Stavanger hefur iðað af mannlífi allan maí að sögn Helenu.
Stavanger hefur iðað af mannlífi allan maí að sögn Helenu. Ljósmynd/Helena Rúnarsdóttir

Betra veður en á Spáni

Hún ætlar að halda áfram að nýta góða veðrið og er ferðinni heitið í grillveislu ásamt fjölskyldunni og fleiri Íslendingum í kvöld. „Í gær vorum við á Sola-ströndinni sem er ein sú stærsta í Noregi og jafnast alveg á við Spánarströnd og hún var alveg troðfull. Fólk er að nýta tækifærið og gera eitthvað skemmtilegt.“  

Sannkölluð Spánarstemning ríkir í Stavanger og rúmlega það. „Ég hef heyrt af fólki sem var að koma frá Spáni og þar var kaldara heldur en hér. Svo er einn sem ég þekki sem var á Krít og hann flýtti heimferðinni til að komast í góða veðrið í Noregi.“  

Frá Sola-ströndinni utan við Stavanger.
Frá Sola-ströndinni utan við Stavanger. Ljósmynd/Helena Rúnarsdóttir

Þá segist Helena vera nánast hætt að deila myndum af góða veðrinu, að minnsta kosti svo Íslendingar sjái. „Maður er eiginlega hættur að þora að snappa myndum,“ segir hún og hlær. 

Hún segist hins vegar skilja pirringinn hjá þeim sem eru staddir á Íslandi afar vel. Þær gleðifréttir bárust hins vegar frá Veðurstofunni í morgun að allir landsmenn munu sjá til sólar á morgun, að minnsta kosti hluta dags. Það er því enn von.

Sólin hefur skinið glatt allan maímánuð í stórum hluta Noregs.
Sólin hefur skinið glatt allan maímánuð í stórum hluta Noregs. Ljósmynd/Helena Rúnarsdóttir
„Lífið breytist í eitthvað allt annað líf þegar það er …
„Lífið breytist í eitthvað allt annað líf þegar það er svona gott veður,“ segir Helena Rúnarsdóttir, sem er búsett í Stavanger, ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Helena Rúnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert