Hetja fær ríkisborgararétt

Flóttamaður frá Malí sem bjargaði barni frá því að falla af svölum í París fær franskan ríkisborgararétt. Fréttir bárust af afreki Mamoudou Gassama í gær en atvikið átti sér stað á laugardagskvöldið. 

Gassama, sem er 22 ára gamall, kom til Frakklands seint á síðasta ári í leit að betra lífi. Hann var boðaður á fund forseta Frakklands, Emmanuel Macron í morgun þar sem forsetinn færði honum heiðursorðu franska ríkisins og veitti honum ríkisborgararétt. 

Mamoudou Gassama hefur verið fagnað sem þjóðhetju í Frakklandi frá því myndskeið fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla af honum klifra upp hlið fjölbýlishússins til þess að bjarga fjögurra ára dreng sem hékk fram af svölum á fjórðu hæð. Fleiri milljónir netverja hafa horft á myndskeiðið. 

Mamoudou Gassama er hetja Frakka í dag.
Mamoudou Gassama er hetja Frakka í dag. AFP

Macron lét ekki nægja að veita honum orðu og ríkisborgararétt heldur lagði hann til að Gassama fengi vinnu hjá slökkviliðinu. „Ég var ekki að hugsa um neitt. Ég fór bara beina leið upp,“ sagði Gassama við Macron á fundi þeirra í forsetahöllinni í morgun. Bravo svaraði Macron að bragði. 

„Ég er mjög ánægður því þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ verðlaun af þessu tagi,“ sagði Gassama eftir að hafa tekið við orðunni en hann kom til landsins í september. 

Atvikið átti sér stað í 18. hverfi Parísar um klukkan 20 á laugardagskvöldið. Í myndskeiðinu sést Gassama klifra á milli svala hússins á sama tíma og maður sem er staddur á næstu svölum við drenginn reynir að halda höndum hans svo hann falli ekki. Gassama, sem býr á gistiheimili fyrir hælisleitendur, sveiflar öðrum fótleggnum yfir svalahandriðið áður en hann réttir út hægri handlegginn og grípur drenginn. 

Slökkviliðsmenn komu skömmu síðar á vettvang og segir talsmaður þess að það hafi orðið barninu til bjargar að einhver hefði haft líkamsburði og hugrekki til þess að klífa upp og bjarga barninu. 

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron ræðir við Mamoudou Gassam.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron ræðir við Mamoudou Gassam. AFP

Í viðtali við 24 í gær sagði Gassama að hann hefði einfaldlega farið af stað án þess að hugsa. Það hafi ekki verið fyrr en hann var búinn að bjarga drengnum og þeir komnir inn í stofu íbúðarinnar sem hann hafi áttað sig á því sem hafði gerst. „Ég byrjaði að skjálfa. Ég gat varla staðið upp. Ég varð að sitja kyrr,“ sagði hann. 

Foreldrar drengsins voru ekki heima þegar atvikið átti sér stað og var faðir hans yfirheyrður hjá lögreglu í gær. Móðirin var ekki í París þetta kvöld.

Fyrr í mánuðinum hvöttu mannúðarsamtök sem starfa í tveimur búðum hælisleitenda í París yfirvöld til þess að bæta stöðu fólk sem býr í búðunum við ömurlegar aðstæður. Talið er að um 1.600 manns frá Afríku, aðallega Súdan og Erítreu, hafist við í tjaldbúðum áVillette-svæðinu í 19. hverfi og um 600 manns, flestir Afganar, hafast við í tjaldbúðum við Saint-Martin skurðinn í 10. og 11. hverfi. 

Við bakka Saint-Martin á föstudaginn.
Við bakka Saint-Martin á föstudaginn. AFP

Borgarstjóri Parísar,AnneHidalgo hefur hvatt ríkisstjórn landsins til þess að finna skjól fyrir fólkið sem hefur flúið til Evrópu úr fátækt og örbrigð í heimalöndum sínum. Eina svarið sem hún hefur fengið er að vandamálið sé hennar nema hún vilji að herinn rými búðirnar. 

Saint-Martin skurðurinn í miðborg Parísar.
Saint-Martin skurðurinn í miðborg Parísar. AFP

Mannúðarsamtök óttast að ef ekkert verður að gert til þess að aðstoða fólkið þá þýði það að stór hluti þeirra eigi eftir að enda í höndum mansalshringja. 

Bústaður fólks á flótta í París.
Bústaður fólks á flótta í París. AFP
Porte de la Villette - í 19. hverfi Parísar.
Porte de la Villette - í 19. hverfi Parísar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert