Árás í Belgíu

AFP

Karlmaður skaut tvo lögreglumenn til bana og vegfaranda í belgísku borginni Liège í morgun og framdi síðan sjálfsvíg. Saksóknari sem annast rannsókn á hryðjuverkjum í Belgíu fer með rannsókn málsins.

Tveir lögreglumenn til viðbótar særðust í árásinni en árásarmaðurinn tók einnig konu í gíslingu, samkvæmt fréttum belgískra fjölmiðla. 

Talsmaður ríkissaksóknara, Eric Van Der Sypt, segir að vísbendingar séu um að árásin sé hryðjuverk. 

Hátt viðbúnaðarstig er í gildi í Belgíu og hefur verið allt frá árinu 2016 en það ár létust 32 í árásum sem framdar voru af vígasamtökunum Ríki íslams. 

Heimildir belgískra fjölmiðla herma að maðurinn hafi kallað Allahu Akbar (Guð er mikill) á arabísku meðan á árásinni stóð.

Innanríkisráðherra Belgíu, Jan Jambon, segir á Twitter að hryðjuverkadeild lögreglunnar fylgist grannt með og hugur hans sé hjá fórnarlömbum þessa viðurstyggilega glæps.

Nos pensées sont avec les victimes de cet acte horrible. Nous sommes en train d’établir un aperçu de ce qui c’est déroulé exactement.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert