Leit hætt án árangurs

Tvær þotur Malasyan Airlines fórust á árinu 2014, MH370 og …
Tvær þotur Malasyan Airlines fórust á árinu 2014, MH370 og MH17. AFP

Rannsókn á hvarfi malasísku farþegaþotunnar MH370, sem kostuð var af einkaaðilum, hefur verið hætt. Flugvélin hvarf 8. mars 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking með 239 manns um borð.

Bandaríska rannsóknarfyrirtækið Ocean Infinity hefur notað djúpsjávarskip til þess að rannsaka víðáttumikið svæði í suðurhluta Indlandshafs án þess að finna nokkuð tengt farþegaþotunni. Malasísk yfirvöld segja að ekki standi til að hefja leit að nýju, segir í frétt BBC.

Hart er deilt um hvað hafi orðið um þotuna og fjölskyldur þeirra sem voru um borð vilja að leit verði haldið áfram. Leysa þurfi ráðgátuna og að fólk fái upplýsingar um hvarf ættingja og vina. 

Um borð voru 153 Kínverjar og 38 frá Malasíu. Aðrir farþegar um borð voru frá Íran, Bandaríkjunum, Kanada, Indónesíu, Ástralíu, Indlandi, Frakklandi, Nýja-Sjálandi, Úkraínu, Rússlandi, Taívan og Hollandi. Allir 12 í áhöfn flugvélarinnar voru frá Malasíu.

BBC

Skipsbrak sem fannst við leit að flugvélinni.
Skipsbrak sem fannst við leit að flugvélinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert