Verði glæpsamlegt að aðstoða flóttamenn

Sýrlenskir flóttamenn í Ungverjalandi árið 2015.
Sýrlenskir flóttamenn í Ungverjalandi árið 2015. AFP

Ríkisstjórn Ungverjalands hefur gert drög að frumvarpi um að glæpsamlegt verði að hjálpa flóttafólki að leita hælis í landinu. Ef frumvarpsdrögin verða að lögum óbreytt þá verður t.d. ólöglegt að prenta bæklinga með upplýsingum til hælisleitenda sem og að bjóða þeim matvæli og lögfræðiaðstoð. 

Þá stendur einnig til að breyta stjórnarskrá landsins til að koma í veg fyrir að önnur ríki Evrópusambandsins geti beint hælisleitendum til Ungverjalands. Í frétt BBC segir að með þessu sé forsætisráðherrann Viktor Orban að bjóða reglum ESB um flóttafólk birginn. 

Stjórnvöld í Ungverjalandi, Póllandi, Tékklandi og Slóvakíu eru andsnúið þeim fyrirætlunum ESB að flytja 160 þúsund manns sem flúið hafa frá Sýrlandi og Erítreu til Ítalíu og Grikklands til annarra ríkja ESB. Flóttamannabúðir á Ítalíu og Grikklandi eru orðnar yfirfullar. 

Fréttaritari BBC í Búdapest segir að deilt sé um frumvarpsdrögin á ungverska þinginu nú þrátt fyrir þá staðreynd að mjög fáir flóttamenn reyni nú um stundir að komast til Ungverjalands þar sem stjórnvöld þar hafa komið upp gaddavírsgirðingum á landamærum sínum í suðri.

Hægri flokkur Orbans, Fidesz, hefur mikinn meirihluta á þinginu en atkvæði verða greidd um frumvarpið í næstu viku. Orban var endurkjörinn í kosningum í síðasta mánuði. 

Lagafrumvarpið hefur verið kallað „stöðvum Soros“ og er þar vísað til auðmannsins og mannvinarins George Soros. Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa sakað hann um að hvetja múslima til að flýja til Evrópu. Soros er fæddur í Ungverjalandi. Hann hefur hafnað ásökununum en segir Orban fara gegn grunngildum Evrópusambandsins. 

Árið 2015 fór um milljón hælisleitenda í gegnum Ungverjaland á flótta sínum frá Sýrlandi, Írak og Afganistan. Flestir þeirra voru á leið til Þýskalands. Ungverjar sem og mörg nágrannaríki komu sér þá upp miklum landamæragirðingum til að hefta för flóttafólksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert