Kim vill kjarnavopnalausan Kóreuskaga

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í dag að hann sé staðráðinn í að gera Kóreuskagann að kjarnavopnalausu svæði. Frá þessu greinir norðurkóreska ríkisfréttastofan KCNA í dag.

„Kim Jong-un segir að vilji Norður-Kóreu fyrir kjarnavopna afvopnun Kóreuskaga sé enn óbreytt og stöðug,“ sagði í frétt KCNA um fund þeirra Kim og Lavrovs í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu í dag.

Er Kim sagður vonast eftir samskiptum við Bandaríkin og að kjarnavopna afvopnun „verði leyst skref fyrir skref“. Þá er hann einnig sagður vonast eftir lausn á málinu í gegnum „árangursríkar og uppbyggilegar samræður og samninga“.

Heimsókn Lavrovs til Norður-Kóreu á sér stað á sama tíma og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræðir við norðurkóreska embættismenn um væntanlegan fund þeirra Kim og Donald Trump Bandaríkjaforseta í Singapore í næsta mánuði.

Unnið er að því að leggja línurnar fyrir dagskrá fundarins, sem halda á 12. Júní. Ein helsta hindrunin er talin vera hugtakið um „kjarnavopna afvopnun“. Báðir aðilar segjast hlynntir því að það verði gert, en mikil munur er hins vegar á þeim skilningi sem þeir leggja í hugtakið.

Bandarísk stjórnvöld vilja að Norður-Kórea losi sig við öll kjarnavopn sín hið fyrsta með sannanlegum hætti, eigi þau að fá efnahagsaðstoð og höft að vera afnumin.

Sérfræðingar telja hins vegar líklegt að ráðamenn Norður-Kóreu verði tregir til að láta öll kjarnavopn sín af hendi, nema þeir fái tryggingu fyrir því að bandarísk stjórnvöld muni ekki steypa núverandi stjórn landsins af stóli.

Eru lýsingar Kim taldar gefa í skyn að hann vonist til að afvopnavæðingin eigi sér stað í skrefum.

Hefur Lavrov varað við því að setja markið of hátt og hvetur hann báða aðila til að forðast freistinguna á að krefjast þess að fá allt strax,“ að því er segir í yfirlýsingu frá rússneska utanríkisráðuneytinu.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, fundaði með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, fundaði með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert