Notuðu svínablóð til að sviðsetja morðið

Arkady Babchenko, til hægri, ásamt Vasyl Grytsak, yfirmanni úkraínsku öryggislögreglunnar, …
Arkady Babchenko, til hægri, ásamt Vasyl Grytsak, yfirmanni úkraínsku öryggislögreglunnar, á fundi með fréttamönnum. AFP

Rússneski blaðamaðurinn Arkady Babchenko, sem birtist sprelllifandi á blaðamannafundi í gær eftir að tilkynnt hafði verið að hann hefði verið skotinn við heimili sitt daginn áður segir svínablóð hafa verið notað til að sviðsetja dauða sinn.

Babchencko ræddi við fjölmiðla í dag, en það vakti mikla undrun er hann birtist á fréttamannafundi í gær. Úkraínsk yfirvöld segja dauða Babchenko hafa verið sviðsettan til að svipta hul­unni af rúss­nesk­ri ráðagerð um að myrða Babchenko og að búið sé að handtaka þá sem stóðu á bak við þá ráðgerð.

„Samkvæmt því sem ég veit þá hófst sérstök rannsókn á málinu fyrir tveimur mánuðum síðan," hefur AFP-fréttastofan eftir Babchenko. Hann segist fyrst hafa verið vantrúaður á að rétt væri að einhver ætlaði að myrða sig og að hann hafi jafnvel verið reiður út í úkraínsku öryggislögregluna. Hann hafi þó snarlega skipt um skoðun er hann sá hve nákvæmar upplýsingar leigumorðinginn hafði um sig.

Bjuggu til sögu um að hann væri fótbrotinn

Babchenko yfirgaf heimaland sitt Rússland í febrúar í fyrra, eftir að hafa fengið hótanir. Fyrst bjó hann um tíma í Tékklandi, síðan í Ísrael áður en hann flutti til Kiev í Úkraínu.

Babchen­ko hef­ur lengi vel gagn­rýnt stjórn­völd í Kreml og bauð sig meðal ann­ars fram fyr­ir stjórn­ar­and­stöðuna í kosn­ing­um árið 2012, auk þess sem hann hef­ur gagn­rýnt aðgerðir Rússa í Sýr­landi og aust­ur­hluta Úkraínu.

Eftir að Babchenko féllst á að vinna með öryggislögreglunni var ferðum hans að heiman fækkað. „Til að draga úr hættunni, þá bjuggum við til sögu um að ég hefði fótbrotið mig til að útskýra af hverju ég færi ekkert út,“ sagði Babchenko.

Morðinginn fékk þrjár vikur til verksins

Þó mikil vinna hafi verið lögð í skipulagninguna ákváðu þeir sem stóðu að baki áætluninni um að myrða Babchenko að flýta henni.

„Þeir fóru að þrýsta á leigumorðingjann. Þeir höfðu gefið honum þrjár vikur til verksins,“ segir Babchenko og bætir við að upphaflega hafi átt að sviðsetja morðið á sér 1. júní.

Daginn sem sviðsetta morðið átti sér stað kom förðunarfræðingur heim til hans. „Við vorum búin að hugsa út hvernig þetta átti að gerast,“ segir hann. Morðið átti að eiga sér stað í anddyrinu þegar ég opnaði hurðina.“

Þá var Babchenko látinn klæðast stuttermabol með götum fyrir byssuskotin, auk þess sem honum var kennt að leggjast þannig að hann virkaði dauður.

„Ég var með alvöru svínablóð. Þeir huldu munn minn og nef og byssukúluholurnar þrjár með því og sjá, ég var dauður,“ sagði hann.

Eftir það var fjölmiðlum, almenningi og þeim sem pantaði morðið tilkynnt um dauða Babchenkos.

„Kona mín hringdi á lögregluna og svo á sjúkrabíl. Víkingasveit lögreglunnar var komin á augabragði og  rannsakaði vettvanginn eins og í kvikmyndum. Þeir vissu ekkert um aðgerðina,“ segir Babchenko.

Mynd af blóði drifnu líki hans birtist skömmu síðar á samfélagsmiðlum og úkraínsk yfirvöld tilkynntu að hann hefði dáið í sjúkrabílnum.

„Leikritið“ hélt þó áfram þar til búið var að loka hurðinni að baki honum í líkhúsinu, en þar fylgdist hann með fréttum af eigin andláti á meðan hann beið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert