Weinstein ákærður fyrir nauðgun

Kvikmyndagerðarmaðurinn Harvey Weinstein var ákærður formlega fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot í New York í gær. Lögmaður hans segir að Weinstein sé saklaus og harðneiti þessum ásökunum sem fram komi í ákærunni.

Tæpir átta mánuðir eru síðan konur stigu fram og sökuðu Weinstein um kynferðislega áreitni og margvíslegt kynferðislegt ofbeldi. Ásakanir á hendur honum mörkuðu upphaf herferðar #MeToo sem hefur haft gríðarleg áhrif um allan heim. 

Héraðssaksóknari á Manhattan, Cyrus Vance, segir að með ákærunni styttist í að stefndi verði látinn gjalda fyrir ofbeldið sem hann er ákærður fyrir. Þetta mál verði rekið í dómsal eins og vera ber ekki í fjölmiðlum, sagði Vance en hann hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki ákært Weinstein fyrir sambærileg brot fyrir þremur árum.

„Þessi rannsókn stendur enn yfir,“ segir Vance og hvetur fórnarlömb Weinstein til þess að hafa samband. 

Weinstein er ákærður fyrir að hafa nauðgað konu á árinu 2013 og fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart annarri konu árið 2004. Hvorug þeirra hefur verið nafngreind. 

Að sögn lögmanns Weinstein snýst nauðgunarákæran um konu sem Weinstein hafi átt í tíu ára ástarsambandi við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert