Trump ætlar að funda með Kim

Donald Trump Bandaríkjaforseti með norðurkóresku sendinefndinni.
Donald Trump Bandaríkjaforseti með norðurkóresku sendinefndinni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að fundur hans með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, um kjarnavopn á Kóreuskaga verði haldinn. Fyrir viku síðan tilkynnti Trump að hann ætlaði að hætta við fundinn, en skömmu síðar dró hann úr með það og sagði vel geta farið svo að fundurinn yrði haldinn.

Hátt settir norðurkóreskir embættismenn komu í Hvíta húsið í dag til að ræða fyrirhugaðan leiðtogafund þeirra og afhenti Kim Yong-chol hershöfðingi, sem er hátt settur aðstoðarmaður Kims, Trump við það tækifæri  bréf um fyrirhugaða afvopnavæðingu Norður-Kóreu.

„Ég held að þetta eigi eftir að verða mjög vel heppnað, að þetta verði á endanum mjög vel heppnað ferli,“ hefur Reuters eftir Trump að loknum fundinum með norðurkóresku embættismönnunum.

Kim Yong Chol er æðsti embættismaður Norður-Kóreu sem komið hefur til fundar í Hvíta húsinu frá því að Bill Clinton gegndi embætti Bandaríkjaforseta.

Trump og Kim skiptust á gífuryrðum eftir að Trump tók við embætti forseta og  og spennan á Kóreuskaga fór stigvaxandi, en undanfarnar vikur hafa einkennst af ákveðinni þýðu í samskiptum þeirra og er nú leiðtogafundurinn í Singapore þann 12 júní aftur kominn á dagskrá.

Sagði Trump að loknum fundinum í dag að Norður-Kórea vildi „kjarnavopna afvopnun“, ráðamenn í Norður-Kóreu hafa hins vegar ekki staðfest þau orð forsetans.

Þá sagði hann bréfið sem hann fékk afhent vera „mjög áhugavert og að á einhverjum tímapunkti kynni að vera viðeigandi“ að gera það opinbert að því er BBC greinir frá. Hann væri þó ekki búinn að lesa það sjálfur ennþá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert