Fann ísbjörn á hótelinu er hún kom til vinnu

Ísbjörninn hafði brotið sér leið inn á þurrvörulager hótelsins og …
Ísbjörninn hafði brotið sér leið inn á þurrvörulager hótelsins og gæddi sér þar á birgðunum. AFP

Ísbjörn braut sér leið inn á hótel á Svalbarða í nótt  með því að brjóta þar upp hurð. Björninn var enn á hótelinu í morgun en til stóð að vísa honum út um níuleytið að því er greint er frá á fréttavefnum Svalbarpdposten.

Ætlaði sýslumaðurinn á Svalbarða að koma þá með aðstoð frá norsku heimskautastofnuninni til að reyna að fá bangsa út aftur, að því er vefurinn hefur eftir lögreglumanninum Arnt Rennan.

Níu gestir og fimm starfsmenn voru á hótelinu, Isfjord Radio, eða Ísafjarðarradíó þegar ísbjörnin kom þangað í heimsókn. Er þeim ekki talin hætta búinn að svo stöddu, en björninn hefur gert sig heimakominn í þurrvörulager hótelsins.

Það var vaktstjórinn Malin Stark sem uppgötvaði þennan óvænta gest um sjöleytið í morgun. „Ég bý í hús í nágrenninu og var á leiðinni inn á hótel. Þá kom ég auga á að það var búið að brjóta upp hurðina. Fyrst varð ég bara pirruð af því að það er stutt síðan við fengum nýja hurð, en sú fyrri var líka eyðilögð af ísbirni,“ segir hún.

Er Stark kom inn á lagerinn sá hún hins vegar að ekki var allt með felldu. „Við vorum með nokkra matarsekki við hurðina og ég sá að það var búið að opna þá. Svo heyrði ég hljóð fyrir innan og áttaði mig á að björninn væri þar.“

Hún segist ekki hafa orðið hrædd, en að adrenalínið hafi vissulega gert vart við sig þegar hún áttaði sig á að ísbjörninn var á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert