Sýni sannanleg skref í átt að afvopnavæðingu

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna með þeim Itsunori Onodera, varnarmálaráðherra Japan …
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna með þeim Itsunori Onodera, varnarmálaráðherra Japan og Song Young-moo varnarmálaráðherra Suður-Kóreu. AFP

Viðskiptahöftum verður ekki létt af Norður-Kóreu fyrr en ríkið getur sýnt fram á „sannanleg og óafturkræf“ skref í átt að afvopnavæðingu kjarnavopna. Þetta sagði James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á fundi um varnarmál í Singpore í dag.

Níu dagar eru nú þar til Donald Trump Bandaríkjaforseti fundar með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í Singapore en bandarísk stjórnvöld vonast til að fundur leiðtoganna verði skref í átt að að því að Norður-Kórea losi sig við kjarnavopn sín.

„Við getum gert ráð fyrir, fari allt á besta veg, ójafnri leið í átt að samræðum,“ sagði Mattis er hann kom fram ásamt utanríkisráðherrum Suður-Kóreu og Japan.

„Við verðum að viðhalda sterku varnarsamstarfi, þannig að við gerum diplómötum okkar kleift að semja úr sterki stöðu á þessum tvísýnu tímum,“ hefur CNN eftir Mattis og kvað Bandaríkin munu halda áfram að beita sér varðandi ákvarðanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um viðskiptaþvinganir í garð Norður-Kóreu. „Norður-Kórea fær ekki aðstoð fyrr en hún sýnir fram á sannanleg og óafturkræf skref í átt að að afvopnavæðingu kjarnavopna,“ sagði Mattis.

Trump tilkynnti á föstudag að leiðtogafundur þeirra Kim væri aftur komin á dagskrá eftir viðræður hátt settra embættismanna og ráðherra ríkjanna undanfarna daga.

Afvopnavæðing kjarnavopna hefur lengi verið deiluefni meðal ríkjanna og verður að telja að það sé enn það málefni sem muni reynast hvað erfiðast að ná samkomulagi um. Ráðamenn í Norður-Kórea hafa í gegnum tíðina verið tregir til þess að láta vopn sín af hendi, enda líta þeir svo á að þau sem tryggingu gegn ógnunum Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert