„Þú gerðir eitthvað einstakt“

Hugrekki Mamoudou Gassama þegar hann bjargaði fjögurra ára gömlum dreng sem hékk fram af svölum með því að klifra upp fjórar hæðir á 30 sekúndum og koma honum í skjól hefur vakið verðskuldaða athygli. En ummæli forseta Frakklands hafa að sama skapi verið olía á eld umræðunnar um flóttafólk í Evrópu.

Agndofa sat fólk um allan heim og fylgist með á skjá sínum þegar 22 ára gamall ólöglegur innflytjandi (sans papiers) frá Mali, Mamoudou Gassama, virtist ekki hugsa sig um tvisvar heldur klifra óhikið upp fjölbýlishúsið í 18. hverfi Parísar. Fyrir ofan hann sást lítill drengur hangandi fram af svölum og nágranni reyna að halda í hönd hans. Gassama, sem gengur undir heitinu „köngulóarmaðurinn“ eftir atvikið, bjargaði drengnum og sagði síðar að hann hefði einfaldlega ekki hugsað. Hann hafi séð barnið og komið því til bjargar. Líkt og hver sem er hefði gert, segir hann.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er einn þeirra fjölmörgu sem dáðust að hugrekki unga mannsins og bauð honum í Elysée höll. Þar nældi hann heiðursorðu í Gassama fyrir hugrekki hans og að hann fengi strax ríkisborgararétt. Ekki nóg með það hann fengi starf hjá slökkviliði Parísarborgar.

Emmanuel Macron og Mamoudou Gassama.
Emmanuel Macron og Mamoudou Gassama. AFP

En Macron gerði sér kannski ekki grein fyrir því strax hvaða áhrif þetta hefði á umræðuna um stöðu flóttafólks, einkum þeirra flóttamanna (migrants) sem ekki falla undir skilgreingar á flóttamannahugtaki Sameinuðu þjóðanna (refugees), í landinu. Talsverður greinarmunur er gerður á flóttafólki (refugees) og öðrum flóttamönnum. Til þess að tilheyra fyrri flokknum þarf viðkomandi að ótt­ast um líf sitt og frelsi. 

Sam­kvæmt alþjóðasátt­mál­um þarf fólk að vera í ein­hvers kon­ar hættu og eiga ekki mögu­leika á viðun­andi vernd og úrræðum í heimalandi sínu. Þetta leiðir bæði af flótta­manna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og lög­um flestra ríkja Evrópu sem sett eru á grund­velli hans.

Efna­hags­leg­ar aðstæður fela ekki í sér aðsteðjandi hættu, um það eru alþjóðasátt­mál­ar og lög skýr. Því geta slík­ar aðstæður ekki verið grund­völl­ur vernd­ar. Réttar­fram­kvæmd um heim all­an end­ur­spegl­ar þetta. Hér er, eins og áður seg­ir, um að ræða neyðar­kerfi fyr­ir fólk í hættu en ekki úrræði til bú­ferla­flutn­inga vegna bágra kjara. Þegar knýjandi ástæður á borð við alvarlega sjúkdóma eða sérlega erfiðar félagslegar aðstæður í heimalandi eru til staðar er heimilt að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

AFP

Le Parisien greinir frá því að Macron hafi sagt við Gassama: „Við getum ekki veitt öllum pappíra sem koma hingað frá Malí, frá Búrkína.“„Við veitum þeim hæli ef þeir eru í hættu ekki af efnahagslegum ástæðum. En það sem þú gerðir er einstakt. Jafnvel þó svo þú sért ekki að hugsa um það þá er þetta merki um hugrekki og styrk sem hefur vakið athygli allra og aðdáun,“ bætti Macron við.

100 þúsund umsóknir um hæli

Á blaðamannafundi eftir fund þeirra sagði Macron jafnframt að einstakt afrek breyti ekki gildandi stefnu.

Líkt og annars staðar í Evrópu hefur verið heit umræða um komu flóttafólks frá Afríku og Miðausturlöndum á undanförnum árum. Macron hefur verið gagnrýndur af ýmsum fyrir hversu harða afstöðu hann hefur tekið í málefnum hælisleitenda að undanförnu. Á sama tíma hafa aðrir fagnað því en mjög skiptar skoðanir eru meðal Frakka hvaða stefnu eigi að taka i innflytjendamálum.

Rúmlega 100 þúsund sóttu um hæli í Frakklandi í fyrra og fengu 30-35 þúsund hæli. Aldrei áður hafa umsóknirnar verið jafn margar í tæp 40 ár og er Frakkland næst á eftir Þýskalandi en þar er gert ráð fyrir því að tæplega 200 þúsund sæki um hæli í ár. 

Flestar umsóknirnar koma frá Albönum en Frakkar, líkt og önnur ríki í Evrópu, líta á Albaníu sem öruggt land þannig að aðeins 6,5% af umsóknum Albana eru samþykktar. Þrátt fyrir að hlutfallslega færri umsóknir hafi verið samþykktar í fyrra en árið 2016 þá skýrist það einkum af fjölgun umsókna frá Albaníu, samkvæmt upplýsingum frá frönskum stjórnvöldum.

Afganir eru næstir á eftir en 83% umsókna þaðan eru samþykktar. Það er fá alþjóðlega vernd í Frakklandi. Fyrr á árinu kom fram að mikil aukning hafi verið í komu fólks frá ríkjum Vestur-Afríku til Frakklands. Til að mynda hafi fjöldi umsókna fólks frá Fílabeinsströndinni tvöfaldast á milli ára og svipaða sögu er að segja frá Austur-Kongó.

Macron hefur lagt mikla áherslu á að flýta ferlinu og er tekur nú yfirleitt á milli tvo til þrjá mánuði að fá umsókn um hæli afgreidda. En síðan eru fleiri þúsundir sem aldrei sækja um hæli enda vita þeir sem er að þeir fá ekki hæli í Frakklandi þar sem þeir eru efnahagslegir flóttamenn. Svona eins og Gassama og fjölskylda. Nema þeir vinni hetjudáð eins og hann sem getur verið þrautin þyngri.

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Í nafni fólksins (hvítra Frakka)

Í síðustu forsetakosningum var þetta eitt helsta baráttumál Marine Le Pen: „Í nafni fólksins,“ var slagorð hennar. Eitthvað sem sumir sögu að væri í raun „Í nafni hvítra Frakka.“ Hún sagðist sjálf ekki vera á móti innflytjendum bara á móti innflutningi fólks og vísaði til þess að hún myndi ekki setja sig upp á móti þeim sem hegðuðu sér sómasamlega. Hún komst í aðra umferð en tapaði fyrir Macron. Hún fékk samt sem áður 10 milljón atkvæði. 

„Býr hann hér?“

Gassama býr á gistiheimili í úthverfi Parísar, Montreuil, og þar svaf hann á gólfinu áður hann varð þjóðhetja. Alla vikuna hefur sjónvarpsfólk verið á sveimi við gistiheimilið í þeirri von að rekast á köngulóarmanninn.

Margir íbúanna höfðu ekki hugmynd um að hetjan byggi undir sama þaki og þeir og voru ánægðir með að feimni strákurinn hefði unnið þetta afrek. „Býr hann hér? Það er ótrúlegt?“ segir Adama Kone, 35 ára frá Márítaníu, sem býr á gistiheimilinu. Heimili sem aðeins er ætlað körlum og er með heimild til þess að húsa 430 manns en miklu, miklu fleiri búa þar. Gistiheimilið er eitt margra sem byggð voru til þess að hýsa innflytjendur sem komu frá Afríku til þess að vinna í Frakklandi á sjöunda áratugnum. Þegar Gassama kom til Frakklands í september 2017 fékk hann dýnu afhenta og gólfpláss í herbergi þar sem bróðir hans bjó ásamt þremur ættingjum frá sama þorpi í vesturhluta Malí. 

Í herberginu eru tveir beddar og sjónvarp sem hefur verið komið fyrir ofan á ísskápnum var áður herbergi Mamoudou Gassama að sögn bróður Mamoudou sem er ákaflega stoltur af litla bróður og hetjudáð hans.

Flestir íbúanna eru frá Malí, Senegal eða Máritaníu og segja þeir lífið oft erfitt í Frakklandi. Erfitt sé að fá vinnu en launin senda þeir heim til fjölskyldna sinna í heimalandinu. Fjölskyldur sem reiða sig á peninga frá þeim. Flestir eru þeir ólöglegir innflytjendur en vonast til þess a fá einhvern tíma að dvelja með löglegum hætti í Frakklandi. Macron hefur hins vegar hvergi kvikað frá þeirri stefnu að neita flestum um dvalarleyfi sem þangað koma með ólöglegum hætti. Talið er að 300 þúsund búi ólöglega í Frakklandi. 

Fjölbýlishúsið sem Gassama bjargaði drengnum.
Fjölbýlishúsið sem Gassama bjargaði drengnum. AFP

Þrátt fyrir að halda í vonina um að fá dvalarleyfi þá eru þeir ekki bjartsýnir og líkt og margir þeirra ungu manna sem dvelja þar ólöglega virðist eina vonin vera að gera eitthvað einstakt. Svona eins og Gassama eða samlandi hans, Lassana Bathily, sem fékk franskan ríkisborgararétt eftir að hann aðstoðaði fólk sem var tekið í gíslingu í matvöruverslun í París í janúar 2015.

Mamoudou Gassama er mættur í vinnuna hjá slökkviliðinu (Brigade des …
Mamoudou Gassama er mættur í vinnuna hjá slökkviliðinu (Brigade des sapeurs-pompiers de Paris - BSPP). AFP

Það tók Galadio Diakite 11 ár að fá dvalarleyfi. Hann er fimmtugur að aldri og hefur búið á gistiheimilinu í 30 ár. Hann segir ástæðuna fyrir því að hann búi þar enn ekki þá að hann vilji búa nálægt öðrum Malí-búum heldur einfaldlega þá að hann hafi ekki ráð á að búa annars staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert