Trump ætlar ekki að náða sjálfan sig

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur líkast til vald til þess að náða sjálfan sig vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum en hann ætlar sér ekki að gera það.

Þetta segir lögfræðilegur ráðgjafi hans, Rudy Giuliani, að sögn BBC

Sérstakur saksóknari hefur rannsakað þátt Rússa kosningunum árið 2016 og hvort Trump hafi hindrað að réttvísin næði fram að ganga.

Spurningin um að forsetinn geti náðað sjálfan sig kom upp eftir að blaðið New York Times birti bréf til  sérstaks saksóknara frá lögfræðingum Trumps.

Rudy Giuliani, lögfræðilegur ráðgjafi forsetans.
Rudy Giuliani, lögfræðilegur ráðgjafi forsetans. AFP

Þar segja þeir að hann hafi algjört vald sem yfirmaður laganna til að binda enda á rannsóknir eða „jafnvel nota vald sitt til að náða“.

Vildu þeir meina að slík völd þýði að forsetinn gæti ekki hafa hindrað framgang réttvísinnar í neinu máli.

Í viðtali á sjónvarpsstöðinni ABC sagði Giuliani að það myndi hafa pólitískar afleiðingar ef hann myndi náða sjálfan sig. „Að náða annað fólk er eitt en að náða sjálfan sig er annað,“ sagði hann.

Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sagði í samtali við CNN í dag að enginn forseti ætti að náða sjálfan sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert