Frönsk kona í lífstíðarfangelsi

Melina Boughedir.
Melina Boughedir. AFP

Frönsk fjögurra barna móðir, Melina Boughedir, var dæmd í lífstíðarfangelsi í Írak í gær fyrir að hafa starfað með vígasamtökunum Ríki íslams í landinu. 

Melina Boughedir var í febrúar dæmd í sjö mánaða fangelsi fyrir að hafa komið með ólöglegum hætti inn í landið og átti að vísa henni úr landi, til heimalandsins Frakklands, en annar dómstóll fyrirskipaði endurupptöku málsins og að réttað yrði yfir henni samkvæmt hryðjuverkalöggjöf Íraks. 

Hún var síðan fundin sek um að hafa starfað með Ríki íslams í gær en þyngsta refsingin við því er dauðadómur. „Ég er saklaus,“ sagði Boughedir á frönsku við réttarhöldin í gær. „Eiginmaður minn hafði mig að ginningarfífli og hótaði að fara með börnin okkar nema ég kæmi með honum til Írak en þar ætlaði hann að ganga til liðs við Ríki íslams,“ sagði hún.

Á fimmtudag sagði utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, að Boughedir væri liðsmaður Ríki íslams og hefði barist gegn Írak og rétt væri að réttað væri yfir henni í Írak.

Lögmenn hennar í Frakklandi sendu mótmælabréf til Le Drian vegna þessa þar sem þeir fordæma ástandið á dómskerfið í Írak og kröfðust þess að frönsk yfirvöld gripu inn.

Á laugardag sagði lögmaður hennar í samtali við AFP-fréttastofuna að fjölskylda hennar og verjendur vildu að hún fengi að snúa aftur til Frakklands og þar yrði réttað yfir henni. 

Boughedir var handtekin síðasta sumar í Mosúl. Talið er að eiginmaður hennar hafi látist í aðgerðum hermanna Íraks gegn Ríki íslams í borginni. Í apríl var önnur frönsk kona, Djamila Boutoutaou, dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir aðild að Ríki íslams í Írak. Hún bar einnig fyrir sér að eiginmaður hennar hafi gabbað hana til þess að fylgja sér til Íraks.

Tugir franskra ríkisborgara eru taldir hafa gengið til liðs við Ríki íslams og sitja í fangelsum í Írak og Sýrlandi. Þar á meðal eru nokkur börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert