Sektuð fyrir notkun snjallúrs við akstur

Sagðist Ambrose aðeins hafa verið að kíkja hvað klukkan væri.
Sagðist Ambrose aðeins hafa verið að kíkja hvað klukkan væri. AFP

Kanadískum nemanda hefur  verið gert að greiða sekt fyrir brot á umferðarlögum vegna truflunar við akstur, en hún var gripin við það að líta á Apple-úr sitt á meðan hún beið á rauðu ljósi. BBC greinir frá.

Victoria Ambrose þarf að greiða 400 kanadíska dollara í sekt, um 32.000 íslenskar krónur, fyrir það að líta á snjallúr sitt þar sem hún beið við gatnamót. Fyrir dómi sagðist hún hafa verið að athuga hvað klukkan væri.

Dómarinn tók þá afsökun hins vegar ekki gilda og sagði að snjallúr væru jafnmikil truflun og ef manneskja væri með farsímann límdan á úlnliðinn.

Ambrose fékk sektina þegar í apríl eftir að lögregla greip hana við að líta á úrið sitt. Hún hafði beðið á rauðu ljósi, en að sögn lögreglunnar keyrði hún ekki af stað þegar ljósið var orðið grænt vegna þess að athygli hennar var á úrinu. Hún mun ekki hafa ekið af stað fyrr en lögreglan lýsti á hana úr lögreglubifreiðinni.

Sú ákærða neitaði því ekki að hafa litið á úrið, en sagðist hins vegar aðeins hafa virst upptekin af úrinu vegna þess að ýta þurfi tvisvar á skjáinn til þess að fá upp tímann.

Dómarinn virti rök Ambrose að vettugi og sagði að aðeins ætti að taka augnablik að líta á klukkuna, jafnvel þó að ýta þyrfti tvisvar á skjáinn, og að ljóst væri að hún hefði orðið fyrir truflun vegna úrsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert