50 ríki draga úr plastmengun

50 þjóðir hafa nú gripið til aðgerða til að draga úr plastmengun að því er fram kemur í ítarlegri skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér um málið. BBC greinir frá.

Fram kemur í skýrslunni að á Galapagos verði allt einnota plast bannað, yfirvöld á Sri Lanka ætli að banna frauðplast og stjórnvöld í Kína krefjast þess nú að allir pokar sem þar eru notaðir geti brotnað niður í náttúrunni. Taupokar hafa þá gott sem alfarið tekið við af plastpokum í Marokkó, þar sem þeir eru þá bannaðir, en yfirvöld lögðu hald á 421 tonn af plastpokum eitt árið.

Höfundar skýrslunnar vara þó við því að grípa þurfi til mun víðtækari aðgerða eigi að draga úr magni plastmengunar í ám og höfum. Þess utan dugi góð og gild stefnumið margra þjóða í þessum málum ekki til, sé þeim ekki fylgt eftir.

Í mörgum þróunarlöndum valda plastpokar flóðum er þeir stífla holræsi, auk þess sem búfénaður leggur sér þá til munns.

Aðgerðir til að taka á plastúrgangi eru þá sagðar hafa tekist misvel. Í Kamerún eru plastpokar bannaðir og fjölskyldur fá greitt fyrir hvert kíló af plastúrgangi sem þær safna. Plastpokum er þó engu að síður smyglað inn til landsins.

Nokkur ríki hafa þá sett sér reglur um plastnotkun sem lítið er gert til að fylgja eftir.

Plastflöskur á ruslahaugum í Hanoi í Víetnam. Um átta milljónum …
Plastflöskur á ruslahaugum í Hanoi í Víetnam. Um átta milljónum tonna af plasti er kastað í hafið ár hvert. AFP

Kanínufeldur, hampur og ananaslauf í stað plasts

Í skýrslunni er birtur listi yfir niðurbrjótanleg efni sem komið geta í staðinn fyrir plast, m.a. Abaca hampur, kanínufeldur, froða gerð úr sveppum, efnið Zein sem er að finna í maískorni, efni úr laufi ananasplöntunnar og efnaþræðir sem unnir eru úr mjólkurafgöngum.

Nokkurrar tortryggni gætir þó í garð þessara staðgengla plastsins, enda eru margir minnugir þess er regnskógar voru felldir til að rækta pálmatré fyrir framleiðslu á bíódísil.

„Matið sýnir að aðgerðir geta verið sársaukalausar og hagkvæmar,“ segir Erik Solheim, yfirmaður umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna. „Hagnaðurinn af því að draga úr kostnaðarsamri mengun er mikill fyrir fólk og plánetuna. Plastið er ekki vandamálið, heldur hvað við gerum við það.“

Samkvæmt skýrslunni gefast álögur og bönn, þar sem þau hafa verið vel skipulögð og er fylgt eftir, einna best til að draga úr plastúrgangi. Skýrsluhöfundar ítreka þó að þörf sé á auknum samstarfsvilja fyrirtækja, m.a. þurfi plastframleiðendur að gangast við ábyrgð sinni og hvetja til aukinnar endurvinnslu.

Áin Níger í Bamako héraði er stífluð af plastúrgangi.
Áin Níger í Bamako héraði er stífluð af plastúrgangi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert