„Passaðu að láta ekki drepa þig“

Á sama tíma og heimsbyggðin bíður eftir sögulegum fundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, undirbýr eftirherma norðurkóreska leiðtogans sig einnig fyrir að koma fram í Singapore.

Eftirherman, sem kallar sig Howard X og býr í Hong Kong, hefur vakið sífellt meiri athygli fyrir að herma eftir Kim Jong-un.

Howard tekur þátt í viðburði sem verður haldinn til hliðar við leiðtogafundinn, sem er fyrirhugaður á þriðjudaginn í næstu viku.

Á undanförnum mánuðum hefur Howard ferðast vítt og breitt um heiminn og vakti hann töluverða athygli í gervi Kims á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang ásamt eftirhermu Donalds Trump.

Þar var hann fluttur á brott af lögreglunni eftir að hafa dansað og veifað sameinuðum kóreskum fána fyrir framan norðurkóreskar klappstýrur.

Howard X í gervi Kims Jong-un.
Howard X í gervi Kims Jong-un. AFP

Núna hefur hótel í Singapore ráðið bæði Howard og Trump-eftirhermuna til að koma fram á meðan á ráðstefnu leiðtoganna stendur.

Markmiðið er að  hvetja almenning til opinberrar umræðu um stjórnmál í gegnum háðsádeilu, að sögn Howards.

Hann viðurkennir að fjölskyldan hans hefur sitthvað að athuga við hinn nýja starfsferil hans.

„Það fyrsta sem þau sögðu var: „Passaðu að láta ekki drepa þig“,“ sagði Howard við AFP-fréttastofuna og  bætti við að móðir hans væri þegar búin að líftryggja hann.  

Howard X skoðar ávexti í gervi leiðtoga Norður-Kóreu.
Howard X skoðar ávexti í gervi leiðtoga Norður-Kóreu. AFP

Howard fæddist í Hong Kong en ólst upp í Ástralíu. Hann hefur áður starfað sem tónlistarmaður.

Síðan hann byrjaði sem eftirherma árið 2012 hefur Kim verið hans aðalnúmer. „Það mætti segja að ég hafi verið blessaður með andliti hans,“ sagði Howard.

„Kim Jong-un verður forseti allt sitt líf, öfugt við forseta Bandaríkjanna og forsætisráðherra. Hvað ferilinn minn varðar þá verður hann langur og ábatasamur.“

Þrátt fyrir að herma eftir leiðtoganum umdeilda segist hann vera mjög svo andvígur stjórnarfari hans.

„Þetta er einræði yfir heilli þjóð, huga hennar og líkömum.“

Howard X vekur víða athygli sem eftirherma.
Howard X vekur víða athygli sem eftirherma. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert