„Trudeau stakk okkur í bakið“

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, stakk okkur í bakið á fundi leiðtoga G7 ríkjanna, segir Larry Kudlow, helsti efnahagsráðgjafi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. „Hann gerði öllum á G7 mikinn óleik,“ bætti Kudlow við í samtali við CNN í dag. 

Að sögn Kudlow slökuðu Bandaríkin á kröfum sínum og tóku þátt í því sem fylgdi í kjölfarið á ráðstefnunni. Síðan hafi Trudeau breytt um stefnu blaðamannafundinum án þeirra vitundar. 

Trudeau sagði fréttamönnum að sú ákvörðun Trump að skírskota til þjóðaröryggis þegar hann reyndi að réttlæta verndartolla Bandaríkjanna á stál og álinnflutning væri ákveðin smán í garð kanadískra uppgjafarhermanna sem stóðu með bandarískum bandamönnum sínum í átökum allt aftur til fyrri heimstyrjaldar. „Kanadamenn eru kurteisir og sanngjarnir en við látum heldur ekki stjórna okkur,“ sagði Trudeau.

Í kjölfarið birti Trump færslu á Twitter um að hann hafi farið fram á það að fulltrúar Bandaríkjanna myndu ekki skrifa undir samkomulagið.

Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, tók þátt í Twitter-stríðinu í dag þar sem hann sakar Trump um að hafa að einhverju leyti eyðilagt samskipti Bandaríkjanna og Evrópu með hegðun sinni í gærkvöldi. 

„Þú getur eyðilagt ótrúlega mikið af trausti á skjótan hátt á Twitter. Þetta gerir það enn mikilvægara en áður að Evrópa standi saman og verji hagsmuni sína á enn harkalegri hátt,“ skrifar Maas á Twitter. „Sameinuð Evrópa er svarið við Bandaríkin fyrst.“

Trump hefur ekkert tjáð sig það sem af er degi á Twitter en hann er kominn til Singapúr þar sem hann mun eiga fund með leiðtoga Norður-Kóreu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert