Bandaríkin klár með „einstakt loforð“

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkin eru tilbúin að bjóða Norður-Kóreu „einstakt“ loforð um öryggisráðstafanir ef Norður-Kórea samþykkir að hefja afvopnunarvæðingu kjarnavopna sinna. Þetta sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í morgun.

Sögulegur fundur Donalds Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, fer fram á morgun, þriðjudag, í Singapúr, en um miðnætti í kvöld að íslenskum tíma. Í frétt AFP vegna fundarins segir að Pempeo hafi hljómað jákvæður og gefið í skyn að viðræður í aðdraganda fundarins hefðu gengið betur en vonir stóðu til.

Pempeo sagði Trump-stjórnina ekki taka annað í mál en að Norður-Kórea myndi losa sig alveg við kjarnavopn en á móti yrði gripið til aðgerða sem gerðu Norður-Kóreu kleift að afvopnast án þess að hafa áhyggjur af því að niðurstaðan yrði slæm fyrir ríkið.

„Þvert á móti leiddi slík ákvörðun til bjartari og betri tíma fyrir Norður-Kóreu,“ sagði Pompei og bætti við að ráðstafanirnar sem hann vísaði til væru einstakar og öðru vísi en Bandaríkin hafa áður verið tilbúin að bjóða. 

„Ég er bjartsýnn á að við fáum jákvæða niðurstöðu á fundi leiðtöganna. Það eru bara tvær manneskjur sem geta tekið ákvarðanir af þessari stærðargráðu. Þeir eru að funda á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert