Gaf sig sjálfur fram við FBI

James Wolfe gaf sig sjálfur fram við FBI. Hann er …
James Wolfe gaf sig sjálfur fram við FBI. Hann er sakaður um að hafa lekið upplýsingum í fjölmiðla um Rússarannsóknina. AFP

James Wolfe, fyrrverandi starfsmaður njósnanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefur sjálfur gefið sig fram við bandarísku alríkislögregluna FBI, vegna rannsóknar hennar á upplýsingaleka frá stjórnvöldum í tengslum við rannsóknina á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum.

BBC segir Wolfe hafa verið yfirmann öryggismála nefndarinnar í tæp 30 ár og að hann hafi í starfi sínu búið yfir leynilegum upplýsingum. Hann hefur nú verið sakaður um að ljúga að FBI, en hefur ekki verið ákærður fyrir að bera ábyrgð á lekunum.

Hann er hins vegar sagður hafa logið að FBI um samskipti sín við þrjá fjölmiðlamenn.

Wolfe fór á eftirlaun í maí á þessu ári. Hann var sl. föstudag sakaður um að hafa gefið falskan vitnisburð í desember á síðasta ári, m.a. um notkun sína á dulkóðunarbúnaði og fyrir að veita fréttamönnum viðkvæmar upplýsingar um nefndarmenn þingnefndarinnar.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur nú sakað Wolfe um að vera í reglulegu sambandi við fjölmiðlamenn sem hann á að hafa átt fundi með á veitingastöðum, börum og á skrifstofum öldungadeildarinnar.

Gengur rannsókn FBI m.a. út að að komast að því hvernig Ali Watkins, fyrrverandi fréttamaður vefjarins Buzzfeed, komst að því að Carter Page, sem starfaði fyrir forsetaframboð Donald Trumps Bandaríkjaforseta, hefði fundað með rússneskum spæjurum 2013.

Wolfe neitaði upphaflega að þekkja til Watkins, en játaði síðar að þau hefðu átt í ástarsambandi frá 2014. Hann fullyrti engu að síður að hann hefði aldrei deilt með henni trúnaðarupplýsingum.

New York Times, þar sem Watkins starfar nú, greindi frá því er kærurnar gegn Wolfe voru opinberaðar, að FBI hefði tekið mikið magn gagna úr íbúð Watkins í tengslum við rannsókn sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert