Hlífa lífi Penku eftir Serbíuferðina

Kýrin Penka verður ekki aflífuð þrátt fyrir Serbíuferðina.
Kýrin Penka verður ekki aflífuð þrátt fyrir Serbíuferðina. AFP

Búlgörsk yfirvöld greindu frá því í dag að lífi kýrinnar Penku yrði þyrmt. Penka átti dauðadóm yfir höfði sér eftir að hún fór yfir landamæri Evrópusambandsins og dvaldi 15 daga í Serbíu.

„Niðurstöður rannsóknarstofu sýna að kýrin sem dvaldi 15 daga í Serbíu og kom svo aftur yfir landamærin til Búlgaríu er hrein af öllum sjúkdómum sem leitað var að,“ sagði í yfirlýsingu frá búlgörsku matvælastofnuninni.

„Hún verður því ekki aflífuð heldur mun hún snúa aftur til hjarðar sinnar í vikulokin,“ sagði talsmaður stofnunarinnar.

Raunir Penku vöktu mikla athygli á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum víða um heim eftir að eigandi hennar, Ivan Haralampiev, vakti athygli á ákvörðuninni um að aflífa hana. Kýrin hafði ráfað frá hjörð sinni í nágrenni búlgarska bæjarins Mazarachevo yfir til Serbíu, en þar dvaldi hún í hálfan mánuð áður en bændur á svæðinu báru kennsl á hana út frá eyrnamarki hennar.

Penka braut þar með reglur ESB um innflutning lifandi dýra frá landi utan ESB, en krafa er gerð um margvísleg gögn sem kveða á um heilsu dýrsins, til að fá heimild fyrir slíkum innflutningi.

Haralampiev hafði ekki fyllt út þá pappíra sem þörf var á til að heimila heimkomu Penka og var honum fyrirskipað að aflífa hana hið fyrsta. Þess í stað vakti hann athygli á málinu í sjónvarpi og bað fyrir lífi hennar.

Viðbrögðin létu heldur ekki á sér standa og sl. mánudag höfðu rúmlega 30.000 manns undirritað áskorun til stofnana ESB um að Penku yrði hlíft, en meðal þeirra sem settu nafn sitt við listann var Bítillinn Paul McCartney.

Haralampiev sagði búlgörskum fjölmiðlum í dag að hann væri mjög þakklátur „öllu fólkinu um heim allan sem stóð í lappirnar fyrir vesalings dýrið mitt.“

„Þið hafið ekki hugmynd um það hversu mikið álag þetta var, en það var þess virði,“ sagði Haralampiev og kvaðst hlakka til endurfunda þeirra Penku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert