„Kaldrifjað, gróft og tilfinningalaust“

Verslunarmiðstöðin Sørlandssenteret í Kristiansand í Suður-Noregi þar sem 15 ára …
Verslunarmiðstöðin Sørlandssenteret í Kristiansand í Suður-Noregi þar sem 15 ára stúlka stakk aðra 17 ára til bana og stórskaddaði 24 ára konu fyrir tæpu ári. Ljósmynd/Wikipedia/Carsten R.D.

„Þetta er stóralvarlegt og sorglegt mál í hverju ein manneskja er rænd lífi sínu og önnur er stórsködduð. Skaði Marie Skuland verður ekki bættur.“ Þannig hljóðuðu lokaorð Jan Tallaksen, fulltrúa ákæruvaldsins, fyrir Héraðsdómi Kristiansand í Suður-Noregi í dag þar sem verið var að ljúka aðalmeðferð í máli 16 ára stúlku sem gekk berserksgang í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret þar í bænum 26. júlí í fyrra, stakk 17 ára stúlku til ólífis og stórskaðaði 24 ára konu, en bæði fórnarlömbin voru stödd í matvöruversluninni Coop eins og mbl.is greindi frá í frétt af árásinni á sínum tíma.

Tallaksen saksóknari var ómyrkur í máli þegar hann hélt því fram í málflutningi sínum að ákærða, sem var aðeins 15 ára þegar hún lét til skarar skríða í fyrrasumar, hefði lagt á ráðin um atlögu sína af kaldrifjaðri yfirvegun og sýndi meðal annars fram á að hún hefði, að morgni árásardagsins, farið inn á síðuna vasalæknirinn.no (lommelegen.no) og leitað þar upplýsinga um hnífstunguáverka og hvar þeir yllu mestu líkamstjóni. Eins sýndi ákæruvaldið fram á leit ákærðu á myndskeiðavefnum YouTube með leitarorðunum „knife attack“ og „knife killing“.

„Það er ekkert verið að hika hérna“

„Hún velur sér tvö tilviljunarkennd fórnarlömb, tvö saklaus og ung fórnarlömb sem sæta þessari hrottalegu atlögu og bera ekki minnstu ábyrgð á stormasömum uppvaxtarárum hennar og lífi. Hvoru tveggja, manndrápinu og manndrápstilrauninni, lýsi ég sem kaldrifjuðu, grófu og tilfinningalausu [n. kaldblodig, brutalt og følelsesløst],“ voru lokaorð Talleksen, sem af hálfu ákæruvaldsins fer fram á 11 ára fangelsi yfir ákærðu.

Áður hafði hann lýst þeim einbeitta ásetningi sem ákæruvaldið telur hafa legið að baki árásarinnar með svofelldum orðum: „Fyrir fram er þetta ákaflega yfirvegað. Fjórar mínútur líða þar til hún fer inn í [Coop], finnur hnífinn [sem hún stal í versluninni], stingur númer eitt, stingur númer tvö og yfirgefur svo staðinn. Þetta sýnir einbeitni hennar. Það er ekkert verið að hika hérna.“

Ákærða hefur lýst sig seka að hluta samkvæmt ákæru. Hún skýrði mál sitt þannig fyrir réttinum að hún hafi ætlað að gera eitthvað róttækt (n. drastisk) en ásetningur hennar hafi ekki staðið til að verða annarri manneskju að bana.

Með grátstafinn í kverkunum lauk hún útskýringum sínum fyrir héraðsdómara í dag með orðunum „Ég veit að það sem ég gerði ykkur er óbætanlegt. Ég veit ekki hvað ég get gert annað en að biðjast afsökunar. Mér þykir svo ótrúlega ótrúlega mikið fyrir því sem gerðist,“ sagði þessi 16 ára stúlka sem gæti verið á leið í fangelsi fram undir þrítugt.

Lögregla hafði afskipti af ákærðu 107 sinnum

Verjandi ákærðu, Hege Klem, telur að ásetningur til að drepa hafi ekki verið til staðar þegar árásin var gerð og því sé einungis hægt að sakfella hana fyrir stórfellda líkamsárás og stórfellda líkamsárás með banvænum afleiðingum, ekki manndráp og tilraun til manndráps. Þessa niðurstöðu rökstyður hún með því að hvort fórnarlamb hafi aðeins verið stungið einu sinni og þau verið á stað þar sem ljóst mátti vera að hjálp bærist þeim fljótt. „Ég tel líka að full ástæða sé til að halda því fram að þetta hefði aldrei gerst hefði hún fengið þá hjálp sem hún átti rétt á. Það er samfélagið sem brást henni,“ segir Klem og vísar til erfiðra uppvaxtarára ákærðu, margra barnaverndarmála og tíðra flutninga.

Fram kemur í málsgögnum að lögregla hafi alls 107 sinnum haft afskipti af ákærðu, þar af 89 sinnum á síðustu sex mánuðunum fyrir árásina 26. júlí 2017. Málflutningur Klem hefur hlotið nokkurn meðbyr en Sørlandet-sjúkrahúsið hefur meðal annars sent frá sér opinbera afsökunarbeiðni í kjölfar rannsóknar Næromsorg Sør, NOS, einkarekins fyrirtækis sem starfar með barnaverndaryfirvöldum á vettvangi barna með atferlisvanda. Í skýrslu NOS kemur fram að sjúkrahúsið hafi meðal annars brotið á rétti ákærðu, sjúkdómsgreint hana ranglega og henni hafi verið veitt fullkomlega óforsvaranleg meðferð á barna- og unglingageðdeild sjúkrahússins.

Lokadagur aðalmeðferðar var í dag og má vænta dóms í málinu á næstu vikum.

Umfjöllun norskra fjölmiðla:

Dagblaðið VG

Dagblaðið VG II

Dagblaðið VG III

Norska ríkisútvarpið NRK

Norska ríkisútvarpið NRK II

Norska ríkisútvarpið NRK III

Dagbladet

Dagblaðið Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert