Ráðherrann náði einstakri sjálfu með Kim

Kim fór í útsýnisferð um Singapúr með utanríkisráðherranum.
Kim fór í útsýnisferð um Singapúr með utanríkisráðherranum. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fór í útsýnisferð í skjóli nætur síðastliðna nótt í fylgd Vivian Balakrishnan, utanríkisráðherra Singapúr. Kim er staddur í Singapúr vegna sögulegs leiðtogafundar hans og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem fer fram á morgun. AFP-fréttastofan greinir frá.

Kim kom til Singapúr í gærmorgun og virðist hafa tekið sér smá frí frá undirbúningi fundarins til að skoða sig um eftir að hafa dvalið inni á hóteli sínu allan daginn. Kim, systir hans og aðstoðarmaður skoðuðu meðal annars Gardens by the Bay, sem er manngerður garður staðsettur í loftkældri hvelfingu við höfnina í Singapúr.

Balakrishnan var duglegur að taka myndir í ferðinni. Þar á meðal sjálfu af sér og Kim sem hann birti á Twitter. Talið er að um sé að ræða fyrstu mynd sinnar tegundar af Kim sem birtist opinberlega, en hann er yfirleitt umkringdur fjölda lífvarða sem gæta hans hvar sem hann fer. Og ekki mikið í því að bregða á leik fyrir framan myndavélar.

Skiptar skoðanir eru á myndinni á Twitter, en á meðan sumir hneykslast yfir henni og segja að Balakrishnan eigi að skammast sín, finnst öðrum hún skemmtileg. „En sætt,“ sagði einn fylgjandi utanríkisráðherrans um myndina.

mbl.is

Bloggað um fréttina